Landslið
Byrjunarlið U17 kvenna gegn Hollandi á NM U17 kvenna

Grátlegt tap gegn Hollandi

Leikið gegn Dönum um 7. sætið á laugardaginn

3.7.2009

Stelpurnar í U17 töpuðu naumlega gegn Hollandi í lokaleik sínum í riðlakeppni opna Norðurlandamótsins í Svíþjóð.  Lokatölur urðu 1 - 2 Hollendingum í vil eftir að íslenska liðið hafði leitt með einu marki í hálfleik.

Hollenska liðið sótti mun meira í fyrri hálfleik en það íslenska varðist skynsamlega og af ákefð.  Liðið beitti svo skyndisóknum og úr einni þeirra skoraði Ásta Eir Árnadóttir gott mark og kom það á 32. mínútu leiksins.  Stelpurnar leiddu því þegar blásið var til leikhlés og voru leikmenn beggja liða fegnir því að komast í skjól því að um 32 stiga hiti var á meðan leiknum stóð.

Íslenska liðið lék betur í síðari hálfleik en þrátt fyrir það voru það Hollendingar sem skoruðu bæði mörk hálfleiksins.  Jöfnunarmarkið kom á 67. mínútu og sex mínútum síðar fékk Heiðrún Sara Guðmundsdóttir rautt spjald fyrir að brjóta á leikmanni sem var við það að sleppa í gegn.  Það var svo í uppbótartíma að hollenska liðið skoraði sigurmarkið í leiknum eftir mikinn atgang.  Íslenska liðið geystist í sókn og á síðustu andartökum leiksins átti Birna markvörður Haraldsdóttir gott skot úr aukaspyrnu en boltinn small í þverslánni og í því var flautað til leiksloka.

Stelpurnar munu leika um sjöunda sætið í mótinu og mæta þar Dönum á laugardaginn.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög