Landslið
UEFA

Dregið í undankeppni EM 2012 á sunnudaginn

Ísland er í fimmta styrkleikaflokki þegar dregið verður í Varsjá

4.2.2010

Á sunnudaginn, 7. febrúar,  verður dregið í undankeppni fyrir EM 2012 en úrslitakeppnin fer fram að þessu sinni í Póllandi og Úkraínu.  Dregið verður í Varsjá og hefst drátturinn kl. 11:00 að íslenskum tíma.

Þjóðunum er skipt niður í sex styrkleikaflokka og eru níu þjóðir í efstu fimm flokkunum en sex þjóðir skipa sjötta flokkinn.  Við skiptinguna var stuðst við styrkleikalista UEFA sem gefinn var út þegar undankeppni fyrir HM 2010 var lokið.  Íslendingar eru í fimmta styrkleikaflokki í drættinum en dregið verður í níu riðla.  Það verða því sex riðlar sem verða skipaðir sex þjóðum en þrír riðlar munu innihalda fimm þjóðir

Sigurvegarar hvers riðils komast beint í úrslitakeppnina ásamt þeirri þjóð sem verður með bestan árangur í öðru sæti.  Hinar átta þjóðirnar sem lenda í öðru sæti riðilanna leika svo umspilsleiki um sæti í úrslitakeppninni.  Þá hafa fjórtán þjóðir tryggt sér þátttökurétt og síðustu tvær þjóðirnar eru svo gestgjafarnir, Pólland og Úkraína.

Úrslitakeppnin 2012 er sú síðasta þar sem 16 þjóðir leika í úrslitakeppninni en þegar keppnin verður haldin 2016 munu 24 þjóðir leika í úrslitakeppninni.  Tilkynnt verður 28. maí næstkomandi hvar úrslitakeppnin verður haldin árið 2016 en þrjár þjóðir eru um hituna: Frakkland, Ítalía og Tyrkland.

Flokkarnir líta þannig út:

Flokkur 1: Spánn, Þýskaland, Holland, Ítalía, England, Króatía, Portúgal, Frakkland og Rússland

Flokkur 2: Grikkland, Tékkland, Svíþjóð, Sviss, Serbía, Tyrkland, Danmörk, Slóvakía og Rúmenía

Flokkur 3: Ísrael, Búlgaría, Finnland, Noregur, Írland, Skotland, Norður Írland, Austurríki og Bosnía-Hersegóvína

Flokkur 4: Slóvenía, Lettland, Ungverjaland, Litháen, Hvíta Rússland, Belgía, Wales, Makedónía og Kýpur

Flokkur 5: Svartfjallaland, Albanía, Eistland, Georgía, Moldavía, ÍSLAND, Armenía, Kasakstan og Liechtenstein

Flokkur 6: Aserbaídsjan, Lúxemborg, Malta, Færeyjar, Andorra og San Marínó


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög