Landslið
Byrjunarlið Íslands gegn Svíum á Algarve Cup 2011.

Ísland leikur til úrslita á Algarve Cup

Leika gegn Bandaríkjunum á miðvikudaginn

7.3.2011

Íslenska kvennalandsliðið gerði sér lítið fyrir í dag og lagði það danska í síðasta leik liðsins á Algarve Cup.  Ísland tryggði sér þar með sigur í B riðli og í leiðinni sæti í úrslitaleik mótsins gegn Bandaríkjunum.  Þetta er besti árangur sem Ísland hefur náð til þessa á þessu móti.

Íslenska liðið fór í leikinn í dag með þá vissu að jafntefli mundi tryggja þeim sæti í úrslitaleiknum.  Fyrri hálfleikur var tíðindalítill hvað færi varðaði en ekkert vantaði upp á baráttu liðanna.  Heldur opnaðist leikurinn síðustu 15 mínútur hálfleiksins en engin dauðafæri litu dagsins ljós.

Það brast á með mikilli rigningju strax í upphafi seinni hálfleiks og við tók fjörugasti kafli leiksins.  Á 53. mínútu fengu Danir hornspyrnu og upp úr henni benti norski dómarinn á vítapunktinn.  Ekki sáu tíðindamenn heimasíðunnar á hvað var dæmt og ekki þýddi að þrátta við dómarann.  En Þóra B. Helgadóttir gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnuna í horn.  Upp úr hornspyrnunni áttu svo Danir skot í stöng og annað skot í kjölfarið sem rataði yfir markið.  Tæpum tveimur mínútum síðar á svo Hallbera Guðný Gísladóttir góða fyrirgjöf fyrir mark Dana þar sem Dóra María Lárusdóttir skoraði glæsilegt mark með viðstöðulausu skoti.  Baráttan hélt áfram eftir þetta og voru Íslendingar meira með boltann en Danir áttu líka sínar sóknir.  Besta færið fékk Fanndís Friðriksdóttir í síðari hálfleiknum en hún skaut naumlega framhjá eftir frábæran sprett.

Íslenska liðið sá til þess að Danir ógnuðu einungis með langskotum það sem eftir lifði leiks og þau skot sem rötuðu á markið höfnuðu í fangi Þóru í markinu.  Það braust út mikill og verðskuldaður fögnuður þegar flautað var til leiksloka, sæti í úrslitaleiknum tryggt.

Landsliðsfyrirliðinn, Katrín Jónsdóttir, setti landsleikjamet í þessum leik en þetta var 105. landsleikur hennar.  Sannarlega stórkostlegur áfangi hjá Katrínu og svo sannarlega frábært að setja met við þessar aðstæður.

Mótherjar í úrslitaleiknum á miðvikudaginn, Bandaríkin, eru að leika til úrslita á mótinu níunda mótið í röð en alls hefur liðið ellefu sinnum leikið til úrslita á mótinu.  Sjö sinnum hafa Bandaríkin hampað þessum titli en þetta er í fyrsta skiptið sem Ísland leikur til úrslita á þessu sterka móti.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög