Landslið
UEFA EM U21 karla

U21 karla - Hársbreidd frá sæti í undanúrslitum eftir sigur á Dönum

Eitt mark til viðbótar hefði dugað

19.6.2011

Strákarnir í U21 féllu út með sæmd úr úrslitakeppni EM sem fram fer í Danmörku um þessar mundir.  Leikið var gegn heimamönnum í Álaborg og fóru Íslendingar með sigur af hólmi, 3 - 1.  Eitt mark til viðbótar hefði dugað Íslendingum til að komast í undanúrslitin en þangað komust Sviss og Hvíta Rússland upp úr A riðli.

Fyrri hálfleikur var fjörugur og fengu bæði lið góð tækifæri en engu að síður var markalaust í leikhléi.  Síðari hálfleikurinn var einfaldlega stórkostleg skemmtun þar sem bæði lið skópu sér fjöldann allan af góðum marktækifærum.  Stangir og þverslár voru nokkrum sinnum endastöð skota leikmanna liðanna sem og markverðirnir sem á tíðum vörðu á ævintýralegan hátt.

Kolbeinn Sigþórsson kom Íslendingum yfir á 58. mínútu og Birkir Bjarnason bætti við öðru marki tveimur mínútum síðar.  Danir minnkuðu muninn þegar níu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma en Hjörtur Logi Valgarðsson skoraði þriðja mark Íslands með frábæru hægri fótar skoti í þverslánna og inn.  Það mark kom á 92. mínútu og því lítill tími til stefnu til að bæta við fjórða markinu sem fleytt hefði Íslendingum í undanúrslitin.  Strákarnir héldu samt ótrauðir áfram og áttu góðar tilraunir áður en serbneski dómarinn flautaði til leiksloka.

Frábær leikur hjá strákunum og, þrátt fyrir að liðið hafi fallið úr keppni, þá getur það svo sannarlega borið höfuðið hátt eftir þessa úrslitakeppni.  Í hinum leik riðilsins unnu Sviss Hvíta Rússland með þremur mörkum gegn engu og enduðu þeir svissnesku því með fullt hús stiga.  Hvít Rússar, Íslendingar og Danir enduðu með þrjú stig en markatala Hvít Rússa var hagstæðust úr innbyrðis viðureignum þessara liða.

Úr B riðli komust Spánn og Tékkland í undanúrslitin og mætast því Spánverjar og Hvít Rússar annarsvegar og Sviss og Tékkland hinsvegar í undanúrslitaleikjunum.

Leikskýrsla á uefa.com


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög