Landslið
Byrjunarlið Íslands gegn Austurríki í undankeppni EM, október 2011

U17 kvenna - Nánari umfjöllun um sigurinn á Austurríki

Leikið við Kasakstan á sunnudaginn

8.10.2011

Íslensku stelpurnar unnu fyrsta leik sinn í undankeppni EM í gær en riðill Íslands er leikinn í Austurríki.  Íslensku stelpurnar lögðu heimastúlkur með tveimur mörkum gegn einu.  Tómas Þóroddsson er á staðnum og tók saman nánari umfjöllun um leikinn.

Íslenska u-17 ára landslið kvenna spilaði í dag sinn fyrsta leik í undanriðli Evrópumótsins. Stúlkurnar okkar léku við heimastúlkur frá Austurríki. Veður hefur verið nokkuð gott, hiti í kringum 20 stig, en var komin niður í 7 stig er leikur hófst og fór hitinn niður í 3 stig í seinni hálfleik. Fyrir landsleiki er venjan að spila þjóðsöngva liðanna á disk, en eitthvað voru heimamenn að vandræðast með tæknina. Íslensku stúlkurnar voru ekkert að láta það slá sig út af laginu og sungu þjóðsönginn fyrir um 300 áhorfendur. Undirritaður hefur sjaldan fyllst jafn miklu þjóðarstolti við að heyra þjóðsönginn og sýndu stúlkurnar þvílíka fagmennsku.

Byrjunarlið Íslands var skipað eftirtöldum leikmönnum: Lísbet, Berglind Rós, Guðrún, Ingunn, Ella Dís, Sandra, Lára, Glódís, Telma, Svava og Hanna.

Fyrsta færi Íslands kom á 3. mín, eftir hornspyrnu fór skot frá Ingunni framhjá. Stuttu seinna fengu þær Telma og Svava sitthvort hálffærið. Á 15. mínútu átti Glódís flotta sendingu inn fyrir á Telmu, en markmaður Austurríkis greip vel góðann kross frá henni. Tveimur mínútum síðar spiluðu þær Glódís, Hanna og Svava sig í gegn og endaði sóknin með ágætis skoti frá Glódísi sem fór rétt yfir.

Á 21. mínútu tók Lára góða hornspyrnu á kollinn á Glódísi, en flottur skalli hennar fór rétt framhjá. Þremur mínútum síðar tók Telma eina á, sendi fyrir á Hönnu, en markmaður Austurríkis sweepaði vel og náði boltanum á undan Hönnu. Mínútu seinna átti Telma aftur góðan sprett og frábæra sendingu fyrir á Svövu, en markmaður heimamanna varði vel gott skot hennar.

Á 30. mínútu áttu Austurrísku stúlkurnar frábært færi er þær opnuðu í fyrsta sinn vörn íslendinga, en Lísbet varði virkilega vel ein á eina. Eftir þetta færi róaðist leikurinn nokkuð og voru engin færi síðustu tíu mínútunar.

Íslendingar komu gríðarlega einbeittar til leiks í seinni hálfleik og skoruð strax eftir tvær mínútur. Eftir frábæran undirbúning frá Söndru, Hönnu og Telmu negldi Lára boltanum í slánna og inn. Virkilega fallegt mark og vel að verki staðið hjá öllum þeim sem hlut áttu að máli og staðan orðin 0-1. Aðeins þremur mínútum síðar átti Hanna frábæra stungusendingu á Svövu sem tók boltann með sér. Markmaður heimamanna kom út á móti og lokaði ágætlega, en Svava slengdi boltanum í boga yfir markmanninn og í netið. Svava sýndi þarna frábæra tækni og var bæði undirbúningurinn hjá Hönnu og afgreiðslan hjá Svövu í topp klassa. Staðan orðin 0-2 og íslensku stelpurnar að sýna hversu góðar þær eru.

Á 48. mínútu kom Elma Lára inn fyrir Ellu Dís og fór Sandra niður í bakvörð. Tveimur mínútum síðar átti Svava frábæran sprett upp vinstri kannt, en markmaður varði vel gott skot hennar. Á 50. mínútu kom Sandra upp kantinn og úr varð stór sókn þar sem markmaður heimamanna varði í þrígang vel frá þeim Láru, Hönnu og Svövu.

Heldur róaðis leikurinn eftir þessar atlögur íslendinga fyrstu tíu mínútur hálfleiksins sem gáfu tvö mörk og úrvals færi. Austurrísku stúlkurnar áttu svo gott færi á 61. mínútu, en Lísbet varði mjög vel skot alveg út við stöng. Austurrísku stúlkuranar fengu í kjölfarið horn sem Ingunn hreinsaði á síðustu stundu. Þremur mínútum síðar áttu heimamenn flotta sókn og eftir góða fyrirgjöf skoruð þær með góðu skoti úr vítateig. Óverjandi og virkilega vel að verki staðið hjá þeim. Stuttu síðar kom Oddný inn fyrir Hönnu.

Á 75. mínútu voru austurrísku stelpurnar að sleppa í gegn eftir flotta sókn þeirra, en Ingunn var vel vakandi og átti frábæra tæklingu áður en mikil hætta varð. Mínútu seinna átti Berglind einn af sínum frábæru sprettum upp kantinn og fann Oddnýu í fótinn, hún gaf út á Elmu Láru sem átti gott skot rétt yfir markið.

Þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum áttu austurrísku stúlkurnar skot utan af kanti sem hafnaði í stönginni á íslenska markinu. Mínútu síðar slapp heimastúlka inn fyrir vörn íslendinga, en Ingunn elti hana uppi og tæklaði frábærlega. Í lokin fór svo Guðrún lítillega meidd af velli og inn kom Viktoría.

Glæsilegur 1-2 sigur íslendinga því staðreynd og fögnuðu þær vel og innilega eftir erfiðan leik. Völlurinn var blautur og laus í sér og eins voru austurrísku stúlkurnar virkilega góðar í fótbolta. Eftir leikinn voru þær gríðarlega svekktar enda búið að leggja mikið í þeirra landslið og voru þær t.a.m búnar að spila fimm æfingaleiki síðan í ágúst.

Næsti leikur okkar er gegn Kasakstan. Leikurinn er á sunnudaginn og hefst kl 09.00 að íslenskum tíma.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög