Landslið
A-kvenna-Algarve

A kvenna - Sænskur sigur á Algarve

Öll mörkin komu í fyrri hálfleik

2.3.2012

Svíar lögðu Íslendinga með fjórum mörkum gegn einu í annarri umferð á Algarve Cup í dag.  Svíar lögðu grunninn að sigrinum í fyrri hálfleik þar sem þær léku mjög vel en öll mörk leiksins komu á fyrstu 45. mínútunum og hófst markasúpan strax á fyrstu mínútu.

Íslenska liðið byrjaði með boltann en Svíar komust hinsvegar yfir eftir aðeins eina mínútu.  Hár bolti kom inn fyrir vörn Íslendinga sem var afgreiddur í netið.  Á 12. mínútu kom annað mark Svía, nú eftir gott samspil þeirra upp miðjan völlinn.  Á 19. mínútu var dæmd vítaspyrna eftir að brotið var á Hólmfríði Magnúsdóttur.  Á punktinn steig Dóra María Lárusdóttir og minnkaði muninn.

Íslenska liðið fékk aukinn kraft við markið og sótti töluvert að sænska markinu og það var því nokkuð gegn gangi leiksins þegar Svíar bættu við þriðja marki sínu með skalla eftir aukaspyrnu.  Þetta mark kom á 30. mínútu og sjö mínútum síðar kom fjórða mark Svía, með þrumuskoti af löngu færi. 

Síðari hálfleikur var markalaus og tækifærin ekki mörg.  Hólmfríður átti skot í stöngina og á síðustu mínútu áttu Svíar sláarskot eftir aukaspyrnu.  Seinni hálfleikurinn hinsvegar mun betur leikinn af hálfu íslenska liðsins heldur en sá fyrri, þá sérstaklega varnarleikurinn.

Næsti leikur er gegn Kínverjum á mánudaginn og er það síðasti leikur Íslands í riðlakeppninni en leikið verður um sæti næstkomandi miðvikudag.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög