Landslið
Byrjunarlið U17 karla - Seinni leikur við Noreg 2014

Norskur þriggja marka sigur í Kórnum

Norðmenn unnu báða vináttuleikina hjá U17 karla

2.3.2014

U17 karlalandslið Íslands og Noregs mættust öðru sinni í Kórnum í Kópavogi í dag, sunnudag, en liðin mættust á sama stað á föstudag.  Norðmenn höfðu betur í fyrri leiknum og það gerðu þeir einnig í þeim síðari, þegar þeir unnu 3-0 sigur.

Norska liðið var mun sterkara í fyrri hálfleik og okkar drengjum gekk erfiðlega að ná góðu samspili.  Eina mark fyrri hálfleiks kom strax eftir þriggja mínútna leik, þrumuskot frá Mathias Gjerström utan vítateigs, óverjandi fyrir Hörð Fannar Björgvinsson í íslenska markinu. 

Allt annað var að sjá til íslenska liðsins í seinni hálfleik, en þrátt fyrir ágæta tilburði tókst leikmönnum þess  ekki að skora.  Það gerðu Norðmenn hins vegar tvívegis.  Fyrst komst Sander Svendsen í gegn eftir sendingu yfir íslensku vörnina og lyfti hann knettinum snyrtilega yfir Sindra Kristin Ólafsson, sem kom í markið í hálfleik. Þriðja markið kom svo í uppbótartíma og var þar að verki Henrik Björdal, sem þrumaði knettinum í netið í gegnum þvögu leikmanna í vítateignum.

Axel Andrésson átti fínan leik í íslensku vörninni og Viktor Karl Einarsson átti lipra spretti með knöttinn, eins og fyrirliðinn Ernir Bjarnason.  Í liði Noregs var Martin Ödegaard alltaf hættulegur, afar flinkur leikmaður sem skapaði mikinn usla með hraða sínum og tækni.

Leikskýrslan


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög