Landslið
UEFA EURO 2016

Söguleg knattspyrnuvika í undankeppni EM 2016

Toppslagur A-riðils á sunnudag þegar Tékkar taka á móti Íslendingum

15.11.2014

Þessi knattspyrnuvika í undankeppni EM 2016, eða „Week of football“, virðist ætla að vera söguleg fyrir minni aðildarþjóðir UEFA.  Á föstudagskvöldið unnu Færeyingar frækinn eins marks sigur á Grikkjum í Aþenu, og í kvöld, laugardagskvöld, léku liðsmenn Liechtenstein sama leik og unnu 1-0 sigur Moldóvum á útivelli í G-riðli.  Í sama riðli eru Austurríkismenn efstir eftir 1-0 sigur á Rússum.

Þá komst San Marínó á blað í E-riðli með því að gera markalaust jafntefli við Eistland.  Englendingar tróna á toppi E-riðils með fullt hús stiga eftir fjóra leiki.

Slóvakar eru einnig með fullt hús stiga eftir fjóra leiki í C-riðli, en Spánverjar og Úkraínumenn fylgja þeim fast á hæla – öll þessi lið unnu sannfærandi sigra á sínum andstæðingum í kvöld.

Eins og kunnugt er mæta Íslendingar Tékkum í toppslag A-riðils á sunnudag, en leikið er í Plzen.  Uppselt er á leikinn og tekur leikvangurinn um 12 þúsund manns.  Samkvæmt upplýsingum frá tékkneska sambandinu bárust um 45.000 umsóknir um miða á leikinn, þannig að ljóst er að áhuginn er ekki síður mikill í Tékklandi en heima á Íslandi.  Á leiknum verða ríflega 700 íslenskir stuðningsmenn sem munu á efa láta vel í sér heyra.

Allt um undankeppni EM á vef UEFA

 

 

 

 


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög