Landslið

A karla - Tap í Tékklandi

Ísland tapaði sínum fyrstu stigum í undankeppni EM.

16.11.2014

Ísland tapaði 2-1 gegn Tékklandi í uppgjöri toppliðanna í A-riðli í undankeppni EM. Tékkar voru sterkari aðilinn í leiknum og Ísland náði aldrei að sýna sömu takta og það hefur gert í undanförnum leikjum.

Ísland komst yfir á 9.mínútu eftir að Birkir Bjarnason náði að flikka boltanum í vítateig Tékka þar sem Ragnar Sigurðsson var en hann skallaði boltann glæsilega í netið. 

Tékkar sóttu stíft að íslenska markinu eftir þetta og það skilaði marki undir lok fyrri hálfleiks en þá skallaði Pavel Kaderábek knöttinn í markið. Markið kom upp úr aukaspyrnu og má segja að varnarmenn íslenska liðsins hafi verið sofandi á verðinum.

Tékkar komust yfir á 61.mínútu en það mark var vægt til orða tekið slysalegt. Eftir sókn Tékka kom fyrirgjöf en boltinn fór í Jón Daða Böðvarsson og breytti um stefnu. Hannes Þór, markmaður, náði ekki að komast fyrir skotið og boltinn lak inn. Lítið við því að gera en klaufalegt var það.
Tékkarnir hófu eftir þetta að tefja leikinn eins og mest þeir máttu. Jóhann Berg Guðmundsson var nærri búinn að jafna leikinn þegar stutt var eftir en Petr Cech varði glæsilega. 
Niðurstaðan 2-1 tap gegn sterku liði Tékka en íslenska liðið hefði samt með smá heppni getað náð jafntefli.

Tékkland 2 - 1 Ísland
0-1 Ragnar Sigurðsson 9.mín.
1-1 Pavel Kaderábek 45.mín.
2-1 Jón Daði Böðvarsson 61.mín.Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög