Landslið

Ríkharður Jónsson látinn

Lést 14. febrúar 87 ára að aldri

15.2.2017

Ríkharður Jónsson, einn þekktasti knattspyrnumaður Íslands, lést í gærkvöldi, 14. febrúar, á dvalarheimilinu Höfða á Akranesi. Ríkharður var fæddur 12. nóvember árið 1929 og var því 87 ára þegar hann lést. Ríkharður átti einstakan knattspyrnuferil og hampaði m.a. sex Íslandsmeistaratitlum og var lykilmaður í íslenska landsliðinu um margra ára skeið.

Hann hóf að leika með meistaraflokki ÍA árið 1946, þá aðeins 16 ára gamall og sama ár var hann valinn í landsliðshóp Íslands fyrir fyrsta landsleik Íslands.  Hann flutti svo til Reykjavíkur árið 1947 til að stunda málaranám og gekk þá til liðs við Fram og varð Íslandsmeistari með þeim sama ár.  Hann flutti svo að nýju á Akranes og lék með ÍA frá 1951- 1966 og var einnig þjálfari liðsins lengst af þessum tíma.  Hann átti því einn mestan þátt í því að byggja upp hið goðsagnakennda lið ÍA á þessum árum.  Hann hélt svo áfram að þjálfa ÍA eftir að ferli hans sem leikmanns lauk og þjálfaði til ársins 1973 og stjórnaði m.a. ÍA í fyrstu Evrópuleikjum félagsins.  Ríkharður lék 185 leiki með ÍA og skoraði í þeim 139 mörk. 

Landsleikjaferill hans var einnig glæsilegur en hann lék 33 landsleiki, sem fyrirliði í 22 þeirra, og skoraði í þeim 17 mörk en fyrsta leikinn lék hann aðeins 17 ára gamall, árið 1947.  Hann átti markametið í landsleikjum A landsliðs karla allt til ársins 2007 þegar Eiður Smári Guðjohnsen sló metið.  Frægastur landsleikja Ríkharðs er án efa landsleikurinn gegn Svíum á Melavellinum, þann 29. júní árið 1951.  Ríkharður skoraði þá öll fjögur mörkin í 4 – 3 sigri á Svíum sem þá voru ríkjandi Ólympíumeistarar en Íslendingar léku þarna sinn fimmta landsleik.  Þessi dagur hefur jafnan verið minnst sem einum fræknasta degi í íslenskri íþróttasögu en sama dag höfðu Íslendingar betur í landskeppni gegn Dönum og Norðmönnum í frjálsum íþróttum.

Ríkharður var formaður ÍA um árabil og var einnig heiðursfélagi Íþróttabandalags Akraness, Knattspyrnufélags ÍA og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.  Hann fengið allar þær viðurkenningar sem KSÍ veitir, síðast fékk hann heiðurskrossinn árið 1987. Ríkharður var tekinn inn í Heiðurshöll ÍSÍ þann 30. desember 2015, auk þess sem hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2002.

Knattspyrnusamband Íslands sendir aðstandendum og fjölskyldu Ríkharðs innilegar samúðarkveðjur.Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög