Landslið
UEFA EM U17 karla

U17 karla - Ísland í riðli með Frakklandi, Georgíu og Þýskalandi

Úrslitakeppni EM U17 karla fer fram í Slóveníu dagana 4. - 16. maí

4.4.2012

Í dag var dregið í riðla í úrslitakeppni EM hjá U17 karla en dregið var í Slóveníu þar sem úrslitakeppnin fer fram, 4. - 16. maí.  Átta þjóðir leika í úrslitakeppninni og er Ísland í A riðli ásamt: Frökkum, Georgíu og Þýskalandi.

Í hinum riðlinum leika þá: Slóvenía, Holland, Pólland og Belgía.

Ísland mun mæta Frökkum í fyrsta leik sínum í keppninni en leikirnir fara fram í Ljubliana.

Heimasíðan heyrði í Gunnari Guðmundssyni, landsliðsþjálfara U17 karla, sem var viðstaddur dráttinn í Slóveníu og spurði hann fyrst um álit á riðlinum:

"Riðillinn okkar er gríðarlega sterkur, ég er reyndar mjög ánægður að mæta Þjóðverjum, það voru mínir óskamótherjar.  Ég tel að Frakkar séu með besta liðið í þessari keppni og Georgíumenn skildu eftir frábærar knattspyrnuþjóðir, Úkraínu, Spán og England, þegar þeir komust upp úr riðlinum og virðast því mjög sterkir.  Mér finnst okkar riðill meira spennandi við fyrstu sýn en hinn riðillinn er auðvitað einnig afskaplega sterkur"

Er liðið búið að setja sér markmið fyrir keppnina?

"Já, það er að komast áfram í undanúrslitin, verður gríðarlega erfitt en spennandi verkefni."

Hver er helsti styrkur okkar liðs?

"Fyrst og fremst frábær liðsheild sem skilar sem jafnt innan vallar sem utan.  Þeir hafa verið lengi saman og náð góðum árangri.  Það er fyrst og fremst þessi liðsheild sem hefur verið að skila okkur þessum úrslitum hingað til"

 

 

 


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög