Landslið
A landslið karla

Tap á Gamla Ullevi

Aftur naumt 2 - 3 tap hjá íslenska liðinu

30.5.2012

Íslendingar töpuðu 3 - 2 fyrir Svíum í vináttulandsleik sem fram fór á Gamla Ullevi vellinum í Gautaborg í kvöld.  Staðan í leikhléi var 2 - 1 fyrir Svía sem skoruðu tvö mörk á fyrstu 14 mínútum leiksins.  Kolbeinn Sigþórsson og Hallgrímur Jónasson skoruðu mörk Íslands.

Svíar fengu óskabyrjun þegar þeir komust yfir eftir aðeins tveggja mínútna leik.  Annað mark þeirra var rétt handan við hornið en það kom aðeins 12 mínútum síðar og leit út fyrir erfiðan róður hjá íslenska liðinu.  Strákarnir spýttu í lófana og Kolbeinn Sigþórsson minnkaði muninn á 26. mínútu með skalla eftir góða fyrirgjöf frá Ara Frey Skúlasyni.

Þannig var staðan í leikhléi en íslenska liðið hafði í fullu tré við heimamenn í síðari hálfleik sem var þó í rólegri kantinum.  Svíar bættu við þriðja markinu á 77. mínútu en Hallgrímur Jónasson minnkaði muninn með síðustu snertingu leiksins þegar hann skoraði með skalla eftir hornspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar.

Á blaðamannafundi eftir leikinn var Lars Lagerbäck spurður út í byrjun leiksins og hvort Svíar hafi byrjað svona vel eða Íslendingar svona illa?

„Við vorum bara alls ekki nógu góðir, alltof passívir.  Þeir fengu alltof mikinn tíma á þessu fyrsta korteri og Zlatan var lykillinn að fyrstu tveimur mörkunum, en þegar við náðum ró á okkar leik og fórum að spila boltanum betur á milli okkar fannst mér við stjórna leiknum, og það var á mörgum köflum leiksins.  Við erum samt að tapa boltanum of oft ennþá, þó ég sé að sjá miklar framfarir í þessu hjá okkur, það hefur verið stígandi í þessum leikjum þrátt fyrir fjögur töp.  Fyrir utan þessar fyrstu 15 mínútur í kvöld var margt gott hjá okkur í kvöld.“

En er Ísland að spila við of sterka mótherja?  „Nei, alls ekki.  Maður lærir mest og á mesta möguleika á að bæta sig ef maður etur kappi við sterk lið.  En auðvitað þarf að vera jafnvægi í þessu.  Við spilum við Færeyinga í ágúst og þeir eru öðruvísi mótherjar en þau lið sem við höfum spilað við hingað til, þá munum við kannski leika aðeins öðruvísi.  Við eru með marga unga leikmenn sem eru stöðugt að bæta sig.“ 

Var ekki skrýtið fyrir Lars, sem var landsliðsþjálfari Svía um langt árabil, að koma sem þjálfari annars landsliðs og leika gegn sænska liðinu?  „Kannski fannst mér þetta aðeins öðruvísi, en ykkur að segja þá er ég farinn að venjast þessu vel og um leið og leikurinn byrjaði var þetta ekkert mál.  Ég er alveg að verða Íslendingur“  sagði Svíinn og viðstaddir höfðu gaman af.

 


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög