Landslið
UEFA EM A-landsliða kvenna

Naumt tap í Noregi

Ísland fer í umspil um sæti á EM 2013

19.9.2012

Ísland tapaði naumlega 2-1 gegn Noregi í lokaleiknum í undankeppni EM 2013, en liðin mættust á Ullevaal í Osló í kvöld.  Íslenska liðinu nægði jafntefli til að vinna riðilinn og tryggja þar með EM sætið, en tapið þýðir að Ísland fer í umspilsleiki, heima og heiman, í október.

Íslenska liðið var sterkari aðilinn framan af leiknum og stjórnaði hraðanum fyrsta hálftímann, án þess þó að skapa sér teljandi færi. Norðmenn færðu sig smám saman upp á skaftið og leiddu með tveimur mörkum gegn engu í hálfleik, skoruðu á 40. og 42. mínútu. Fyrra markið skoraði fyrirliðinn Mjelde með hörkuskalla úr teignum eftir aukaspyrnu utan af kanti. Seinna markið kom svo eftir sókn upp sama kant og fyrirgjöf, sem Thorsnes mætti á fjærstöng og hamraði hún boltann upp í samskeytin fjær, glæsilegt mark.

Seinni hálfleikur var í járnum framan af, allt þar til á 65. mínútu, þegar Margrét Lára Viðarsdóttir minnkaði muninn með hreint út sagt stórkostlegu marki. Samleikur í sókn Íslands var frábær, einnar snertingar spil sem lauk með því að Margrét Lára var ein fyrir miðjum vítateig norska marksins og setti boltann efst í markhornið hægra megin. Staðan orðin 2-1 og Ísland komið aftur inn í leikinn.

Ísland sótti mun meira það sem eftir lifði leiks án þess þó að ná að skapa sér alvöru marktækifæri. Norska liðið varðist af krafti og svaraði með hættulegum skyndisóknum og voru sóknarmenn þeirra nálægt því að bæta við.

Allt kom fyrir ekki og lokatölur leiksins urðu 2-1 fyrir Noreg, sem vann þannig efsta sæti riðilsins og tryggði þannig sæti í lokakeppni EM í Svíþjóð 2013. Ísland leikur í umspili um laust sæti og fara þeir leikir fram í október, þar sem leikið verður heima og heiman.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög