Landslið
2013 women

Ísland á EM!

Sigur í Laugardalnum í kvöld gulltryggði sæti í Svíþjóð

25.10.2012

Það var metaðsókn á k vennalandsleik í kvöld þegar Ísland lagði Úkraínu með þremur mörkum gegn tveimur.  Það voru 6.647 áhorfendur sem sáu stelpurnar tryggja sér sæti í úrslitakeppninni í Svíþjóð í júlí á næsta ári.  Boðið var upp á hörkuleik í kvöld þar sem íslenska liðið byrjaði betur en gestirnir gáfust alls ekki upp og jöfnuðu metin. 

Það er óhætt að segja íslensku stelpurnar hafi fengið óskabyrjun því Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði strax á 8. mínútu eftir sendingu frá Hallberu Guðnýju Gísladóttur.  Það liðu aðeins fimm mínútur og þá hafði Katrín Ómarsdóttir bætti við glæsilegu marki.  Hún fékk háa sendingu frá Eddu Garðarsdóttur, tók boltann á kassann og þrumaði boltanum upp í þaknetið.  Glæsilega gert og dalurinn kættist.

Næsta mark var gestanna en það kom á 35. mínútu en fram að því hafði leikurinn verið í jafnvægi.  Íslenska liðið gekk því til búningsherbergja, þegar rúmenski dómarinn flautaði til leikhlés, með eins marks forystu og tveggja marka forystu samtals. Úkraínska liðið byrjaði af krafti í síðari hálfleiknum og lagði allt í sölurnar.  Þær uppskáru mark á 71. mínútu og staðan því jöfn, 2 - 2 sem þýddi að eitt mark gestanna í viðbót mundi knýja fram framlengingu.  En okkar stelpur bættu þá í og fimm mínútum síðar skilaði sunnlensk samvinna sigurmarkinu.  Dagný Brynjarsdóttir, þá nýkomin inn sem varamaður, skoraði mark á yfirvegaðan hátt eftir sendingu frá Hólmfríði Magnúsdóttur.  Þar með rann mesti móður af gestunum en stemningin jókst hjá áhorfendum.  Það var svo mikið fagnað þegar leik lauk og sætið í Svíþjóð staðreynd.

Stórkostlegur árangur hjá stelpunum og öllum þeim sem koma að liðinu.  Það voru vissulega vonbrigði að ná ekki að tryggja sér sætið í Noregi en þeim mun sætara að fara þessa leið.  Það verður svo dregið í riðla í úrslitakeppninni 9. nóvember næstkomandi en keppnin sjálf fer fram dagana 10. - 28. júlí á næsta ári.

Til hamingju Ísland!

 

 


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög