Landslið
Lars-Lagerback

"Vináttulandsleikir eru góður vettvangur til að prófa nýja hluti með liðið" - Viðtal við Lars Lagerbäck

Framundan vináttulandsleikur gegn Andorra

5.11.2012

Framundan er vináttulandsleikur gegn Andorra sem fram fer ytra, miðvikudaginn 14. nóvember.  Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari, hefur tilkynnt hópinn og heyrði heimasíðan aðeins í Lars vegna þessa verkefnis.

Leikmenn sem eru í leikbanni í næsta leik í undankeppni HM 2014 (Kári Árnason, Rúrik Gíslason og Grétar Rafn Steinsson) eru ekki valdir í þennan leik.  Hvers vegna?

Ég er auðvitað að vonast eftir vináttulandsleik í febrúar, en þar sem hann er ekki staðfestur er þetta eini leikurinn sem ég hef í hendi varðandi undirbúning fyrir næsta leik í undankeppni HM, gegn Slóveníu í mars.  Þess vegna vel ég leikmenn sem geta spilað þann leik.  Þessir þrír leikmenn eru í leikbanni og geta því augljóslega ekki verið með þar.  Emil og Ari verða reyndar heldur ekki með okkur núna vegna verkefna með sínum félagsliðum, og ég ákvað að gefa þeim frí.“

Það er oft sagt að vináttulandsleikir séu gott tækifæri til að skoða nýja leikmenn.  Ertu sammála því?

Það er líka gott að nota tækifærið og skoða leikmenn sem hafa ekki spilað mikið hjá okkur.  Það koma nokkrir nýir inn fyrir þennan leik og það er gott að sjá hvernig þeir virka í hópnum og á æfingum, vonandi fá sem flestir tækifæri í leiknum, því menn læra af reynslunni.  Eiður Smári hefur verið að standa sig vel í Belgíu og skorar í hverjum leik, en ég þekki hann sem leikmann og veit hversu reyndur hann er og hversu mikilvægur leikmaður hann getur verið, mig langar einfaldlega að skoða leikmenn eins og Matthías aðeins betur, hann var síðast í hóp hjá okkur í Japan, hefur skorað grimmt í næst efstu deild í Noregi í sumar og verður í efstu deildinni þar á næsta ári.  Við fylgjumst hins vegar vel með Eiði og hann gæti alveg komið inn á næsta ári.  Ólafur Ingi er annar leikmaður sem ég vildi gjarnan skoða betur og Rúnar Már er líka spennandi framtíðarleikmaður með mikla hæfileika, hann stóð sig vel í deildinni á Íslandi með Val og var góður á æfingunum fyrir leikinn við Sviss.“

Við virðumst eiga fjölmarga örvfætta varnarmenn um þessar mundir, fín breidd vinstra megin í vörninni.  Þetta hlýtur að teljast jákvætt vandamál fyrir þjálfara?

Engin spurning.  Það er mjög jákvætt fyrir þjálfara að hafa marga valkosti í stöður á vellinum, jafnvel þó það sé stundum svolítið erfitt að taka lokaákvörðun um hver eigi að spila.“

Verkefnið í Andorra er væntanlega góður vettvangur fyrir leikmenn að vekja á sér athygli fyrir verkefni næst árs?

Já, ég vonast til að allir komi inn í þetta verkefni, eins og öll önnur, að standa sig sem allra best, læra inn á liðið og samherja sína.  Það verða allir að vera á tánum.  Vináttulandsleikir eru góður vettvangur til að prófa nýja hluti með liðið, nýja leikmenn, áherslur og fleira.  Það má ekki gleyma því að allir leikir eru mikilvægir, hvort sem það eru mótsleikir eða vináttuleikir, alla leiki á að nálgast með sama hætti og af sama krafti.  Þó svo að þarna verði tækifæri til að fara yfir þá hluti í okkar leik sem við höfum ekki verið alveg sáttir við í undankeppninni og skoða leikmenn, þá viljum við líka vinna leikinn, eins og alla aðra leiki.  Það er svo mikilvægt að tileinka sér hugarfar sigurvegarans og leggja sig alltaf 100% fram.  Leikmenn eiga að vilja vinna sigur í öllum leikjum, burtséð frá því hvort um sé að ræða vináttuleik eða leik í undankeppni HM.“


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög