Landslið
Jóhann Berg skorar á móti Andorra

Öruggur sigur á Andorra

Sigur í síðasta leik ársins

14.11.2012

Ísland bar sigur af Andorra í kvöld í vináttulandsleik sem leikinn var í Andorra.  Loktaölur urðu 0 - 2 og komu mörkin í sínum hvorum hálfleiknum. 

Íslendingar hófu leikinn af krafti og höfðu yfirhöndina allan leikinn.  Sigurinn hefði hæglega getað verið stærri en tvö mörk dugðu.  Fyrra markið kom á 10. mínútu leiksins þegar Hjörtur Logi Valgarðsson sendi inn á Jóhann Berg Guðmundsson sem lék á markvörð heimamanna og renndi boltanum í netið.  Þannig var staðan í leikhléi þó svo að íslenska liðið hafi fengið nokkur tækifæri til að bæta við mörkum, ekki síst eftir innköst Arons Einars Gunnarssonar. 

Gerðar voru fjórar breytingar í leikhléi en atvik leiksins má sjá með því að smella á leikskýrslutengilinn hér að neðan.  Strákarnir héldu áfram að gera harða hríð að marki Andorra í síðari hálfleik og það bar árangur á 58. mínútu þegar Birkir Már Sævarsson renndi boltanum á Rúnar Már Sigurjónsson.  Hann lék framhjá tveimur varnarmönnum áður en hann skoraði með góðu skoti í fjærhornið.  Frábær byrjun á landsliðsferlinum hjá Rúnari sem þarna lék sinn fyrsta landsleik ásamt Jóni Daða Böðvarssyni, sem kom inná í síðari hálfleik.  Mörkin urðu ekki fleiri þrátt fyrir fín færi, m.a. stangarskot frá Ólafi Inga Skúlasyni.

Sigurinn öruggari en tölurnar segja kannski til um og gott að enda landsliðsárið á sigri.  Fylgst var með leiknum með textalýsingu á Facebooksíðu KSÍ.

Leikskýrsla 


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög