Landslið
Byrjunarliðið gegn Svíum á Algarve 2013

A kvenna - Eins marks tap gegn Kína

Ísland leikur um 9. sætið á mótinu

11.3.2013

Kvennalandsliðið lék í dag síðasta leik sinn í riðlakeppni Algarve mótsins en liðið beið þá lægri hlut fyrir Kína, 0 - 1.  Markalaust var í leikhléi en sigurmarkið kom á 62. mínútu leiksins eftir hornspyrnu.

Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað en Kínverjar voru heldur meira með boltann í byrjun.  Dóra María Lárusdóttir komst í ágætt færi á 4. mínútu en bjargað var í horn.  Á 12. mínútu fengu Kínverjar hinsvegar gott færi en Þóra Helgadóttir sá þá við sóknarmanni þeirra sem komin var ein í gegn.  Besta færi hálfleiksins kom svo á 29. mínútu þegar Rakel Hönnudóttir komst ein í gegn en renndi boltanum rétt framhjá.

Íslenska liðið byrjaði síðari hálfleikinn vel og var sterkari aðilinn.  Okkar stelpur vildu fá vítaspyrnu á 60. mínútu þegar varnarmaður Kínverja virtist handleika knöttinn innan vítateigs og örskömmu síðar var Hólmfríður Magnúsdóttir hársbreidd frá því að ná til boltans, í dauðafæri, eftir fyrirgjöf Hallberu Gísladóttur.  Aðeins tveimur mínútum síðar skoruðu svo Kínverjar mark, nokkuð gegn gangi leiksins, eftir hornspyrnu.  Það sem eftir lifði leiks sótti íslenska liðið nokkuð en náði ekki að skapa sér góð marktækifæri.

Ísland hafnaði því í neðsta sæti riðilsins og leikur um 9. sætið á miðvikudaginn.  Ekki er ljóst, á þessari stundu, hverjir mótherjarnir verða.

Edda Garðarsdóttir lék sinn 100. landsleik í dag og er hún því einn af þremur Íslendingum sem hafa leikið 100 A landsleiki í knattspyrnu.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög