Landslið
UEFA EM U19 kvenna

U19 kvenna - Jafntefli gegn Norður Írum í fyrsta leik í milliriðli

Leikið gegn Finnum á laugardaginn

4.4.2013

Stelpurnar í U19 hófu í dag leik í milliriðli EM þegar þær mættu Norður Írum en riðillinn er leikinn í Portúgal.  Jafntefli varð niðurstaðan í hörkuleik, 1 - 1, þar sem íslensku stelpurnar leiddu í leikhléi.

Það var Telma Þrastardóttir sem kom íslenska liðinu yfir á 27. mínútu leiksins og gengu íslensku stelpurnar því til búningsherbergja í leikhléi með forystuna.  Það var mikil barátta í síðari hálfleik en Norður Írar náðu að jafna metin á 63. mínútu með marki úr vítaspyrnu og þar við sat.

Ísland því með eitt stig eftir fyrsta leikinn en efsta þjóðin í riðlinum tryggir sér sæti í úrslitakeppni EM í sumar.  Næsti leikur liðsins fer fram á laugardaginn en þá mætir liðið stöllum sínum frá Finnlandi.  Finnar höfðu betur gegn heimastúlkum í Portúgal í hinum leik riðilsins, 2 - 1, og leiða því riðilinn með þrjú stig.

Tómas Þóroddsson sendi okkur eftirfarandi umfjöllun um leikinn:

Íslenska u-19 ára landslið kvenna mætti Norður Írum í fyrsta leik milliriðils Evrópumótsins í dag, en leikið er í Portúgal. Eftir talsverða yfirburði Íslenska liðsins í fyrri hálfleik og 1-0 forystu í hálfleik. Þá jafnaðist leikurinn nokkuð í seinni hálfleik þó svo að íslensku stúlkunar hefðu alltaf haft yfirhöndina og náðu N-Írar að jafna úr ódýrri vítaspyrnu.

Byrjunarlið Íslands var eftirfarandi: Halla Margrét Hinriksdóttir, Guðrún Arnarsdóttir, Sigríður Lára Garðarsdóttir, Lára Kristín Petersen, Sveinbjörg Auðunsdóttir, Anna María Baldursdóttir, Andrea Rán Hauksdóttir, Elín Metta Jensen, Guðmunda Brynja Óladóttir, Sandra María Jessen og Telma H. Þrastardóttir.

Leikurinn var aðeins í jafnræði fyrstu mínútunar, en strax á þeirri 6. spiluðu þær Telma. Andrea og Elín Metta sig í gegn, Elín fann svo Önnu Maríu úti, en skot hennar var varið. Á 11. mín gaf Telma boltann innfyrir á Gummu, en markmaður N-Íra varði. Mínútu seinna gaf Gumma boltann inn fyrir á Telmu en skot hennar fór yfir. Þarna var orðið ljóst að Íslensku stelpunar voru að taka leikinn yfir.

Á 22. mín átti Sísi Lára frábæra sending inn á Gummu, hún kom með góðan kross sem Sandra skallaði rétt framhjá. Tveimur mínútum seinna fengu N-Írar besta færi sitt í hálfleiknum er skot þeirr fór rétt framhjá. Í næstu sókn átti Gumma góða skiptingu yfir á Söndru sem flengdi boltanum með vinstri í fyrsta inn í teig og þar var Elín Metta mætt, en náði ekki að gera sér mat úr sókninni og spurning hvort á henni hafi verið brotið.    

Mínútu eftir þessa góðu sókn skoruðu Íslendingar og var það einnig úr mjög fallegri sókn. Anna María og Andrea leku boltanum snyrtilega á milli sín og opnuðu svo hægri kantinn fyrir Gummu, hún lék upp að endamörkum, átti góða sendingu út í teig og þar var Telma mætt og setti boltann af yfirvegun innanfótar í markið. Virkilega vel gert hjá öllum sem að markinu stóðu og Íslendingar því komnir verðskuldað yfir.

Á 28 mín. átti Sandra frábæra sending á Telmu en N-Íranir björguð á síðustu stundu. Mínútu seinna átti Andrea fínt skot framhjá eftir góða sókn. Á 32. mín slapp Telma í gegn, gaf góðan bolta til hliðar á Gummu sem skaut í hliðarnetið úr þröngu færi. Þegar 10. mín voru eftir af hálfleiknum átti Sandra hörku skot í slá, Gumma fylgdi á eftir, en markmaður andstæðingana varði vel, Sandra var fyrst að átta sig og náði frásparkinu, gaf boltann út en sóknin rann svo í sandinn.

Á 38. mín átti Gumma skot rétt yfir. Þegar mínúta var til leikhlés átti Gumma gott hlaup upp kantinn, en N-Íranir björguðu í horn. Andrea tók hornið, en á síðustu stundu náðu N-Íranir að hreinsa. Staðan því 1-0 í hálfleik og voru Íslendingar óheppnir að vera ekki með mun meira forskot.

N-Írar byrjuðu seinni hálfleik af krafti án þess þó að skapa sér eitthvað. Fyrsta færið hálfleiksins fékk Sandra nokkuð óvænt, en náði ekki að gera sér mat úr því. Á 58. mín fengu N-Írar aukaspyrnu við vítateigshorninð. Ágætis skot þeirra var vel varið af Höllu Margréti. Á 61. mín fengu Írar óvænt víti er sóknarmaður þeirra og Halla Margrét markmaður skullu saman við vítateigshorn þannig að Halla var borin af leikvelli. Inn í hennar stað kom Berglind Hrund Jónasdóttir. Úr  vítaspyrnu náðu N-Írar að jafna leikinn.

Um miðjan seinni hálfleik tók Sísí Lára góða aukaspyrnu, Anna María flikkaði boltanum snyrtilega inn í teig og Elín Metta var hársbreidd frá því að ná til knattarins. Mínútu seinna slapp Telma ein í gegn, en markmaður N-Írana varði virkilega vel. Tveimur mínútum seinna átti Andrea flotta sendingu  inn á Gummu, en aftur kom markmaður andstæðingana þeim til bjargar.

Á 72. mín var gerð skipting. Sandra kom út og Hildur Antonsdóttir kom inn. Hildur fór í holuna, Elín Metta fram, Telma á hægri kannt og Gumma á vinstri. Fimm mín seinn átti Gumma góðan sprett upp kantinn en sendingin var tekin af markmanni. Á 82. mín var Elín Metta við það að sleppa í gegn, en tókst ekki. Á 84. mín kom Írunn Þorbjörg Aradóttir inn fyrir Gummu. Síðasta færi leiksins fengu N-Írar er skalli þeirra fór framhjá.

Frekar svekkjandi jafntefli því staðreynd þar sem íslensku stelpunar yfirspiluðu andstæðinga sína á löngum köflum og á móti fengu þær Norður Írsku engin færi á íslenska markið úr opnum leik.

Í hinum leik riðilsins sigruðu Finnar Portúgali 2-1 og ljóst að Finnar mæta með sterkt lið til leiks. Næsti leikur islands er gegn Finnum og fer hann fram á laugardag kl 15 að íslenskum tíma.

Tómas Þóroddsson     


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög