Landslið
U21 landslið karla

U21 karla - Sætur sigur í Armeníu

Emil Atlason með sigurmarkið á lokamínútu leiksins

6.6.2013

Strákarnir í U21 unnu í dag sætan sigur á Armenum en leikurinn var í undankeppni EM.  Lokatölur urðu 1 - 2 fyrir Ísland sem höfðu leitt í leikhléi, 0 - 1.  Emil Atlason gerði bæði mörk Íslands í leiknum, það síðara á lokamínútum leiksins sem reyndist sigurmark leiksins.

Leikurinn var kaflaskiptur, íslenska liðið var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum en heimamenn sóttu meira í þeim síðari.  Kristján Gauti Emilsson komst næst því að skora í fyrri hálfleik en skot hans hafnaði í stönginni.  Það var svo Emil Atlason sem skoraði á 43. mínútu leiksins og Íslendingar leiddu því þegar gengið var til leikhlés.

Leikurinn var í jafnræði í byrjun síðari hálfleiks en þegar leið á hálfleikinn voru það heimamenn sem sóttu töluvert meira, án þess þó að skapa sér opin færi.  Þeir fundu hinsvegar netmöskvana á 67. mínútu og sóttu nokkuð stíft eftir það en íslenska liðið var skeinuhætt í sínum skyndisóknum.  Það bar svo ávöxt á 90. mínútu þegar Emil komst einn inn fyrir vörn Armena, lék á markvörðinn og renndi boltanum í netið við gríðarlegan fögnuð okkar manna.

Sætur sigur í höfn og frábært hjá strákunum að tryggja sér sigur undir lokin.  Frábær barátta og vinnusemi var farin að taka sinn toll undir lokin, enda um 30 stiga hiti í Jerevan.  Tveir útisigrar í tveimur fyrstu leikjunum er byrjun sem sannarlega er hægt að byggja á.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög