Landslið
EM kvenna 2013

Fyrsta umferð EM gerð upp

Mörg jafntefli - Tvö stig gætu dugað í 8-liða úrslitin

13.7.2013

Að loknum fyrstu tveimur leikdögunum á EM kvenna í Svíþjóð var engu líkara en liðin myndu öll vera komin með stig eftir fyrstu umferðina, en það breyttist þó á þriðja leikdegi þegar Frakkar og Spánverjar unnu sigur á sínum andstæðingum í C-riðli.
Fyrsti leikur mótsins, viðureign Finna og Ítala gaf svo sem ekki góð fyrirheit um það sem koma skyldi, enda var skemmtanagildi þess leiks ekki mikið eins og markalaust jafntefli gefur ávallt til kynna.  Raunin var hins vegar allt önnur og hinn leikurinn í A-riðli, opinber opnunarleikur mótsins þar sem heimamenn mættu Dönum, var stórskemmtilegur og fullur af dramatík, öllu því sem gerir fótboltann svo skemmtilegan.  Flest lið eru sátt við að ná í stig í fyrsta leik á stórmóti og eflaust voru Finnar, Ítalir og Danir ánægðir með sitt stig, en Svíarnir vildu reyndar meira og ætla sér stóra hluti á heimavelli – stefna hreinlega á Evrópumeistaratitilinn.

Annað lið sem ætlar sér klárlega að vinna þetta mót eru ríkjandi Evrópumeistarar Þjóðverja, sem áttu í vandræðum með Hollendinga og þó leikurinn hafi verið nokkuð fjörugur tókst hvorugu liði að skora.  Holland kom nokkuð á óvart, en rétt er að hafa í huga að hollensk liðið er öflugt, og þá er framlína þeirra skeinuhætt, afar hraðir leikmenn sem geta valdið usla í hvaða vörn sem er.  Íslenska liðið gerði afar vel í því að jafna leikinn gegn Noregi og er þetta stig sem vannst þar afar dýrmætt fyrir framhaldið.

C-riðillinn reyndist síðan eiga fjörugustu leiki fyrstu umferðar, enda voru leikmenn liðanna þar svo sannarlega á skotskónum.  Frakkar unnu öruggan 3-1 sigur á Rússum og þó síðarnefnda liðið hafi náð að svara fyrir sig undir lokin var sigur þeirra frönsku aldrei í hættu.  Englendinga búast við miklu af sínu liði, en lentu í miklum vandræðum gegn Spánverjum, sem hafa á mörgum flinkum leikmönnum að skipa.  Rétt er að vekja athygli áhugasamra á þessu spænska liði, sem gæti náð athyglisverðum árangri á EM í Svíþjóð.

Þarf ekki mörg stig til að komast í 8-liða úrslitin

Kannski er fullsnemmt að velta framhaldinu fyrir sér, en það má alveg nefna að ekki er víst að það þurfi mörg stig til að komast í 8-liða úrslitin.  Vissulega tryggja fjögur stig það sæti, en þar sem tvö lið af þremur í 3. sæti riðlanna komast áfram gætu þrjú stig dugað, jafnvel tvö ef t.d. England og Rússland í C-riðli tapa bæði gegn Frökkum og Spánverjum og gera svo jafntefli í sinni viðureign, svo dæmi sé tekið.  Nú geta tölfræðingar byrjað að spekúlera …


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög