Landslið
Byrjunarliðið gegn Moldavíu

U17 kvenna - Aftur öruggur sigur hjá stelpunum

Unnu Moldavíu með sex mörkum gegn engu

1.8.2013

Stelpurnar í U17 unnu í dag öruggan sigur á Moldavíu í öðrum leik liðsins í undankeppni EM en riðillinn er einmitt leikinn í Moldavíu.  Lokatölur urðu 6 – 0 eftir að staðan í leikhléi var 2 - 0.

Íslenska liðið byrjaði af krafti og eftir aðeins átta mínútna leik hafði Sigríður María Sigurðardóttir skorað tvö mörk.  Hún skoraði svo sitt þriðja mark í síðari hálfleiknum en Esther Rós Arnarsdóttir skoraði þá tvo mörk og Hulda Ósk Jónsdóttir skoraði eitt.

Með sigrinum er Ísland öruggt áfram í milliriðla en tvær efstu þjóðirnar tryggja sér sæti þangað.  Ísland vann Lettland í fyrsta leik sínum, 5 – 0, og er því með sex stig.  Það verður svo hreinn úrslitaleikur um efsta sæti riðilsins á sunnudaginn þegar Ísland mætir Ungverjum en Ungverjar lögðu Letta í dag, 8 - 0 og eru einnig með sex stig.

Tómas Þóroddsson sendi okkur eftirfarandi umfjöllun um leikinn:

Ísland tók á móti heimasúlkum í Moldavíu í öðrum leik evrópumótsins í dag. Eftir góðan sigur í fyrsta leik var ljóst að með sigri kæmust íslensku stúlkunar áfram. Byrjunarliðið Íslands var skipað eftirtöldum leikmönnum: Hafdís Erla, Eva Bergrún, Bergrós Lilja, Lillý Rut, Ingibjörg, Sigríður, Hulda Ósk, Esther Rós, Tanja Líf, María Eva og Nína Kolbrún.

Íslendingar komust yfir á 5. min er Sigríður María komst ein í gegn eftir flotta sendingu frá Evu og skoraði snyrtilega framhjá markverði Moldova. Tveimur mínútum seinna komst Esther Rós upp kantinn, sendi fyrir og Sigríður mætt inn í teig og setti boltann í netið. Staðan orðin 2-0 og ljóst hvert stefndi. Mínútu seinna átti Hulda gott skot framhjá eftir sendingu frá Sigríði.

Taníja Líf átti stuttu seinna góða sendingu inn á Ingibjörgu sem tók boltann niður í fyrsta og hamraði honum á markið en markmaður Moldóva varði mjög vel. Mínútu seinna varði hún aftur frábærlega skot Sigríðar eftir sendingu frá Esther Rós.

Tanía Líf átti svo skot rétt yfir eftir sendingu frá Esther Rós. Mínútu seinna skallaði Hulda Ósk í slá eftir sendingu frá Esther og Sigríður fylgdi vel á eftir og skallaði boltann yfir.

Næsta sókn var óvenjuleg, þar sem Hulda byrjaði að skjóta í stöng, Esther hirti frákastið, gaf á Lillý sem smellti boltanum í vinkilinn og Hulda fylgdi á eftir og skaut í slá og yfir. Ekki á hverjum degi sem maður sér markstangir bjarga þrisvar í sömu sókninni.

Sigríður átt stuttu seinna hörku skot sem var vel varið í horn. Tveimur mínútum fyrir leikhlé átti Lillý gott skot sem var varið í slá og því í fimmta sinn í fyrri hálfleik sem markstanginar voru ekki á réttum stað.

Ingibjörg átti síðan góða sendingu inn á Sigríði sem skaut framhjá ein gegn markmanni. Esther Rós stakk síðan boltanum inn á Sigríði, en enn og aftur varði markmaður andstæðingana vel. Stuttu seinna flautaði dómari leiksins til hálfleiks og með ólíkindum að staðan hafi einungis verrið 2-0 í hálfleik.

Í hálfleik kom Friðný Fjóla inn fyrir Hafdísi og Díana Dögg kom inn fyrir Nínu Kolbrúnu.

Strax í upphafi seinni hálfleiks fengu Ingibjörg og Esther dauðfæri en markmaður Moldóva varði. Sigríður let verja frá sér af stuttu færi mínútu seinna. Eftir 8. min leik fór Ester Rós upp vinstri kantinn, framhjá einni og sending hennar fyrir rataði á kollinn á Huldu Ósk sem skallaði boltann snyrtilega í netið. Staðam orðin 3-0.

 Þrátt fyrir yfirburði Íslendinga áttu Moldóvar nokkrar álitlegar sóknir en vörnin okkar stóð þær allar af sér.

Esther Rós var síðan klók er hún sat eftir með varnarmanni andstæðinganna, fékk boltann, fór framhjá varnarmanni og svo markmanni og skoraði í autt markið, vikilega vel gert og staðan orðin 4-0. Hrefna Þuríður kom svo inn fyrir Evu Bergrúni. Í næstu sókn á eftir skoraði Sigríður með hörku skoti og innsiglaði þrennu sína og kom Íslandi í 5-0.

Nokkrar ágætis sóknir fylgdu í kjölfarið. Lillý átti síðan frábærlega mjúka sendingu inn á Esther Rós sem fór framhjá markverðinum og skorði í autt markið. Staðan því 6-0 og Esther að skora annað mark sitt í leiknum.

Moldavísku stúlkurnar sluppu að lokum einar í gegn, en Friðný Fjóla var vakandi og varði mjög vel. Hinum megin slapp Esther Rós enn í gegn sólaði á markmanninn en misti boltann of langt frá sér og hann fór afturfyrir endamörk.

Stuttu seinna flautaði góður dómari leiksins leikinn af og sigur Íslands síst of stór. Með þessum sigri tryggði Ísland sig áfram í milliriðilinn og nú er síðasti leikurinn gegn Ungverjum hreinn úrslitaleikur um fyrsta sætið.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög