Landslið
Freyr Alexandersson

Freyr Alexandersson ráðinn þjálfari A landsliðs kvenna

Fyrsti leikurinn undir stjórn Freys er gegn Sviss 26. september

30.8.2013

Freyr Alexandersson hefur verið ráðinn þjálfari A landsliðs kvenna til næstu tveggja ára.  Samningur var undirritaður í dag, föstudag, og gildir hann a.m.k. til loka árs 2014, eða fram yfir úrslitakeppni HM 2015, sem fram fer sumarið 2015 í Kanada.

Freyr, sem er 31 árs gamall (fæddur 1982), hóf þjálfaramenntun sína tiltölulega ungur og lauk fyrsta stigi hjá KSÍ árið 2005.  Hann lauk KSÍ-A gráðu í þjálfaramenntun árið 2009, og er það hæsta gráða sem veitt er á Íslandi.  Breiðholtið í Reykjavík eru æskustöðvar Freys, sem lék með Leikni upp alla yngri flokka og á hann jafnframt að baki alls 81 leik í Íslandsmóti og bikarkeppni með meistaraflokki liðsins. 

Leikmannsferill

Þjálfaraferillinn hófst einmitt hjá Leikni, þar sem hann þjálfaði yngri flokka, áður en hann tók við þjálfun meistaraflokks kvenna hjá Val árið 2008 ásamt Elísabetu Gunnarsdóttur og var svo einn með liðið árin 2010 og 2011.  Á þessum tíma vann Valur fimm stóra titla, Íslandsmeistaratitilinn öll árin þrjú og bikarmeistaratitilinn 2009 og 2010, auk þess sem Freyr var kosinn þjálfari ársins öll árin af sérstakri valnefnd (fyrsta árið ásamt Elísabetu).  Keppnistímabilið 2011 og 2012 var Freyr aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá Val, en fyrir tímabilið 2013 hélt hann á æskuslóðirnar og tók við aðalþjálfun meistaraflokks karla hjá Leikni ásamt Davíð Snorra Jónassyni, og mun hann halda því starfi áfram.

Þjálfaraferill

KSÍ býður Frey velkominn til starfa.  Fyrsti leikur liðsins undir hans stjórn verður leikur á Laugardalsvelli þann 26. september, gegn Sviss í undankeppni HM 2015. 

Átta lið frá Evrópu í lokakeppni HM 2015

Í úrslitakeppninni í Kanada verða í fyrsta sinn 24 lið og á Evrópa 8 af þessum 24 sætum.  Undankeppnin í Evrópu fer þannig fram að liðunum er skipt í sjö riðla og eru 6 lið í hverjum riðli.  Efsta lið hvers riðils fer beint í úrslitakeppnina.  Fjögur lið með bestan árangur í öðru sæti fara í umspil um eitt sæti, þannig að fyrst er leikið í „undanúrslitum“ heima og heiman.  Liðin sem komast áfram leika svo til „úrslita“ heima og heiman um þetta eina sæti í úrslitakeppninni.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög