Landslið
U19 landslið kvenna

U19 kvenna - Öruggur sigur á gestgjöfunum

Leikið við Slóvakíu á mánudaginn

21.9.2013

Stelpurnar byrjuðu undankeppni EM á besta mögulegan máta þegar þær lögðu Búlgari í fyrsta leik sínum í dag en leikið var við gestgjafana.  Lokatölur urðu 5 - 0 fyrir okkar stelpur sem leiddu í leikhléi 2 - 0.

Íslenska liðið fékk óskabyrjun þegar Telma Þrastardóttir skoraði fyrsta mark leiksins eftir aðeins þriggja mínútna leik.  Sandra María Jessen bætti við öðru marki á 25. mínútu og þannig var staðan í leikhléi.  Mörkin urðu svo þrjú til viðbótar í seinni hálfleiknum, Telma bætti við öðru marki sínu og Guðrún Karitas Sigurðadóttir var einnig á skotskónum.  Þá var eitt mark skráð sem sjálfsmark á markvörð heimastúlkna en markið kom eftir hornspyrnu.  Þrátt fyrir öruggan sigur íslenska liðsins var hart barist og fékk íslenska liðið að líta þrjár áminningar í leiknum og einn leikmaður Búlgara var rekinn af velli eftir að hafa fengið að líta tvær áminningar.

Næsti leikur íslenska liðsins í riðlinum er gegn Slóvakíu á mánudaginn en Slóvakar lágu gegn Frökkum í dag, 4 - 0.  Tvær efstu þjóðirnar í riðlinum tryggja sér sæti í milliriðlum.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög