Landslið

Ásmundur Haraldsson aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins

Næsti leikur liðsins gegn Serbíu ytra 31. október

18.10.2013

Ásmundur Haraldsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins og mun þar aðstoða Frey Alexandersson í komandi verkefnum.  Ásmundur er 38 ára og hefur verið yfirþjálfari yngri flokka Stjörnunnar síðan 2010 en þjálfaði m.a. áður meistaraflokk karla hjá Gróttu ásamt því að vera yfirþjálfari yngri flokka félagsins.

Þetta leggst bara gríðarlega vel í mig. Ég er mjög spenntur fyrir þessu verkefni og hlakka til að kynnast þessum heimi fótboltans. Íslenska landsliðið spilar á meðal þeirra bestu og það er mjög spennandi að fá að taka þátt í því.”

Hvernig líst þér á að taka þátt í störfum kvennalandsliðsins?

Það er mjög spennandi að fá að taka þátt í þeim uppgangi sem hefur verið síðustu árin hjá kvennalandsliðinu enda hefur kvennaknattspyrnan eflst gríðarlega síðastliðin ár. Félögin leggja gríðarlegan metnað í kvennaknattspyrnuna og það er að skila sér í öflugu landsliði sem hefur á að skipa þó nokkrum atvinnumönnum sem spila erlendis.”

Nú þekkirðu Frey Alexandersson vel. Hvernig leggst það í þig að vinna með honum?

Ég hef miklar og góðar væntingar um gott samstarf við Frey. Freyr er ekki lengur efnilegur þjálfari heldur einn af betri þjálfurum landsins og ekki að ástæðulausu að hann var ráðinn sem landsliðsþjálfari. Við þekkjumst vel, vinnum vel saman og við vonandi getum vegið hvorn upp og náð því besta út úr einstaklingum og liði. Freyr er fagmaður fram í fingurgóma og ég vænti mikils af samstarfinu.”

En hvernig samræmist starfið störfum þínum hjá Stjörnunni?

Ég hef mjög skilningsríka yfirmenn í Stjörnunni sem að styðja vel við bakið á mér og studdu mig eindregið í að taka þetta verkefni að mér. Ég get því einbeitt mér að landsliðinu í öllum þeim verkefnum sem liggja fyrir á komandi mánuðum. Það er mikill heiður að fá að taka þátt í þessu og ákveðin viðurkenning fyrir félagið að það skuli hafa verið leitað til okkar þjálfara með þetta. Ég vona að sú reynsla og þekking sem að ég kem til að öðlast í landsliðinu muni nýtast í okkar verkefnum í Stjörnunni. Við erum með mjög öflugt barna- og unglingstarf og kvennaflokkarnir okkar vaxa og dafna með hverju árinu og vonandi get ég náð að tengja þetta saman með einum eða öðrum hætti.”

Fyrsta verkefni Ásmundar með liðinu verður í Serbíu, 31. október, þegar leikið verður í undankeppni HM 2015.

Við bjóðum Ásmund hjartanlega velkominn til starfa.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög