Landslið

Þrjú dýrmæt stig sótt til Belgrad

Serbar lagðir 1- 2 í undankeppni HM

31.10.2013

Íslenska kvennalandsliðið vann í dag dýrmætan sigur á Serbum í undankeppni HM en leikið var í Belgrad.  Lokatölur urðu 1 - 2 fyrir Ísland eftir að staðan hafði verið 0 - 2 í leikhléi.

Okkar stelpur voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum og stjórnuðu honum algerlega.  Þær gáfu heimastúlkum aldrei möguleika á því að spila boltanum upp völlinn því framherjar íslenska liðsins mættu varnarmönnum Serba framarlega á vellinum og gáfu þeim aldrei frið.  Fyrsta markið kom einmitt eftir þessa pressu frá íslenska liðinu en þá eltu Harpa Þorsteinsdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir langan bolta fram og Margrét Lára komst á milli þegar varnarmaður skallaði boltann til baka og lyfti boltanum yfir markmanninn og í netið.  Markið kom á 19. mínútu en áður hafði íslenska liðið fengið 2 mjög góð marktækifæri.  Annað  markið komá 43. mínútu þegar Sara Björk Gunnarsdóttir flikkaði langri sendingu aftur fyrir sig á Hörpu sem setti hann í fyrsta til hliðar á Katrínu Ómarsdóttur sem skoraði örugglega.  Staðan því 0 - 2 í leikhléi og var sú staða fullkomnlega sanngjörn.

Heimastúlkur komu mjög ákveðnar til síðari hálfleiks og náðu að halda boltanum betur innan síns liðs.  Þær sköpuðu sér þó ekki mörg marktækifæri fyrr en á 61. mínútu þegar framherji þeirra komst ein í gegn en Þóra Helgadóttir varði frábærlega.  Markið kom þó á 67. mínútu þegar Serbar nýttu sér óöryggi í íslensku vörninni og framherji þeirra lyfti boltanum yfir Þóru og í markið.  Það sem eftir lifði leiks einkenndist mest af baráttu en næst því að skora var Sara Björk Gunnarsdóttir á 72. mínútu þegar hún átti bylmingsskot, fyrir utan vítateig, sem small í miðri stönginni.  Íslensku stelpurnar héldu þetta svo út til enda og fögnuðu sínum fyrstu stigum í undankeppninni.

Dýrmæt stig og erfið að sækja, nokkuð kaflaskiptur leikur þar sem íslenska liðið var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum en Serbar voru betri framan af síðari hállfeik.  Það var mikil einbeiting í hópnum alla ferðina og ljóst að aldrei kom neitt annað til greina en þrjú stig hér í Belgrad.  Síðar í kvöld leika Sviss og Danmörk í okkar riðli en næsti leikur Íslands í undankeppni HM er gegn Ísrael, ytra, 5. apríl.

Á Facebook-síðu KSí má finna myndir og viðtöl úr leiknum.Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög