Landslið

Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson þjálfa saman A landslið karla

Samningurinn við Lars gildir næstu tvö árin en samningur Heimis næstu fjögur ár

25.11.2013

Svíinn Lars Lagerbäck var ráðinn þjálfari A landsliðs karla í október 2011 og var Heimir Hallgrímsson ráðinn aðstoðarþjálfari.  Þeir Lars og Heimir hafa nú undirritað nýja samninga um áframhaldandi þjálfun liðsins.  Samningurinn við Lars gildir næstu tvö árin, en samningur Heimis næstu fjögur ár.  Heimir og Lars starfa báðir sem aðalþjálfarar liðsins næstu tvö árin og mun Heimir taka einn við liðinu sem aðalþjálfari næstu tvö árin þar á eftir.

Samningur Lars gildir til loka árs 2015.  Komist Ísland í lokakeppni EM 2016 framlengist samningurinn sjálfkrafa til loka þess móts.

Samningur Heimis gildir til loka árs 2017.  Komist Ísland í lokakeppni HM 2018 framlengist samningurinn sjálfkrafa til loka þess móts.

Lars Lagerbäck hefur átt langan og farsælan feril sem þjálfari landsliða, fyrst með U21 landslið Svía árin 1990 til 1995.  Hann varð síðan hluti af þjálfarateymi A landsliðsins árið 1998, fyrst sem aðstoðarmaður hjá Tommy Söderberg, síðan annar aðalþjálfara í tveggja manna teymi ásamt Söderberg, og tók loks yfir sem aðalþjálfari liðsins árið 2004.  Lars var í þjálfarateymi liðsins frá 1998 til 2009 og var því við stjórnvölinn hjá landsliði Svía sem á þessum árum fór á fimm stórmót í röð (EM og HM).  Hann hætti þjálfun sænska liðsins árið 2009 og stjórnaði landsliði Nígeríu í úrslitakeppni HM 2010.

Heimir Hallgrímsson tók við liði ÍBV á lokaþriðjungi Íslandsmótsins 2006 og þjálfaði lið Eyjamanna með góðum árangri til loka keppnistímabilsins 2011.  Áður hafði Heimir þjálfað kvennalið ÍBV um nokkurra ára skeið.

Árangur A landsliðs karla hingað til undir stjórn þeirra Lars og Heimis er íslensku knattspyrnu-fjölskyldunni að góðu kunnur - annað sæti riðilsins í undankeppni HM 2014 og umspilsleikir við Króatíu um sæti í lokakeppninni í Brasilíu.  Með undirritun nýs samnings er byggt ofan á þann árangur sem náðst hefur og stefnan sett enn hærra.

Hérna má finna viðtöl af blaðamannafundinum i dag.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög