Landslið
U17-karla-Slovakia

U17 og U19 karla - Dregið í milliriðla og undankeppni EM á fimmtudag

Ísland með í öllum pottum

27.11.2013

Á morgun, fimmtudaginn 28. nóvember, verður dregið í milliriðla EM 2014 hjá U17 og U19 karla og í undankeppni EM 2015 hjá sömu aldursflokkum.  Ísland verður í öllum pottum þegar dregið verður í höfuðstöðvum UEFA en hægt verður að fylgjast með á heimasíðu UEFA og hefst fyrsti drátturinn kl. 08:00 að íslenskum tíma.

Ísland er í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið verður í milliriðla hjá U17 karla fyrir EM 2014 en flokkarnir eru fjórir.  Dregið verður í sjö riðla og komast sigurvegarar hvers riðils í úrslitakeppnina auk gestgjafanna en úrslitakeppnin fer fram að þessu sinni á Möltu, 9. - 21. maí.

Hjá U19 karla er Ísland í fjórða styrkleikaflokki þegar dregið verður í milliriðla fyrir EM 2014 og er sama fyrirkomulag þar og hjá U17 karla.  Úrslitakeppnin þar fer fram í Ungverjalandi, 19. - 31. júlí.

Dagurinn hefst hinsvegar á því að dregið verður í undankeppni EM 2015 hjá U17 karla og er Ísland þar í efri styrkleikaflokki.  Dregnar eru tvær þjóðir úr hvorum styrkleikaflokki en riðlarnir verða alls 13 talsins.  Tvær efstu þjóðirnar komast áfram í milliriðla ásamt fimm þjóðum með bestan árangur í þriðja sæti úr riðlunum þrettán.

Einnig verður dregið í undankeppni EM 2015 hjá U19 karla og er Ísland þar einnig í neðri styrkleikaflokki.  Nákvæmlega sama fyrirkomulag er á keppninni eins og hjá U17 karla og var útlistað hér að ofan.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög