Landslið

Sex landsleikir á fjórum dögum

Nóg um að vera hjá landsliðunum okkar í vikunni

3.3.2014

Það verður svo sannarlega nóg um að vera hjá landsliðunum okkar  í vikunni, bæði hér heima og á erlendri grundu.  Alls leika fjögur landslið sex landsleiki á fjórum dögum.  U19 karla leikur tvo leiki hérlendis, U21 karla leikur í Kasakstan, A karla í Wales, og A kvenna leikur tvo leiki í Algarve-bikarnum.

U19 landslið karla ríður á vaðið í Kórnum á þriðjudag og mætir þá Svíum í vináttuleik sem hefst kl. 14:00.  Þessi sömu lið mætast svo aftur á fimmtudag kl. 09:45 um morguninn og verða báðir þessir leikir í beinni útsendingu á Sport TV (www.sporttv.is).

U21 landslið karla mætir Kasakstan í Astana í undankeppni EM 2015.  Sá leikur fer fram á miðvikudag og hefst kl. 13;00 að íslenskum tíma.  Með þeim leik verður hægt að fylgjast á uefa.com.  Með sigri í leiknum taka strákarnir okkar stórt skref í átt að því markmiði að tryggja sér annað af efstu sætum riðilsins og þar með þátttökurétt í umspili um sæti í lokakeppni EM 2015.

A landslið karla heldur til Cardiff og mætir þar Wales í vináttulandsleik á heimavelli íslenska landsliðsfyrirliðans, Arons Einars Gunnarssonar, Cardiff City Stadium.  Sá leikur fer fram á miðvikudag kl. 19:45 og er í beinni sjónvarpsútsendingu á Skjásporti (www.skjarinn.is/).

A landslið kvenna tekur sem fyrr þátt í Algarve-bikarnum í Portúgal og leikur sinn fyrsta leik í riðlakeppninni á miðvikudag.  Andstæðingurinn er ekki af verri endanum, margfaldir meistarar Þýskalands, og hefst leikurinn kl. 15:00 að íslenskum tíma.  Annar leikur Íslands í mótinu fer svo fram á föstudag og hefst kl. 14:00, en þá verður leikið gegn Noregi.  Eurosport fjallar um Algarve-bikarinn og sýnir beint frá fjölmörgum leikjum í mótinu (http://livescore.yahoo.eurosport.com/football/algarve-women-s-football-cup/).  

Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög