Landslið
U19 landslið karla

Öruggur sigur U19 karla á Svíum í Egilshöll

Tveir Svíar reknir útaf í fyrri hálfleik

6.3.2014

U19 landslið karla vann 2-0 sigur á Svíum í vináttulandsleik sem fram fór í Egilshöll í dag, fimmtudag.  Sigurinn var talsvert öruggari en tölurnar gefa til kynna, því sænska liðið missti tvo leikmenn af velli með rautt spjald í fyrri hálfleik og náði ekki að ógna íslenska markinu.

Íslenska liðið var með undirtökun alveg frá byrjun leiks, en Svíarnir virtust illa stemmdir, virkuðu hreinlega pirraðir.  Á 15. mínútu fékk Christian Kouakou rautt spjald fyrir að hrækja á andstæðing og Íslendingarnir voru ekki lengi að nýta sér liðsmuninn.  Fyrra markið kom á 22. mínútu og var þar að verki Emil Ásmundsson sem skoraði eftir góða sókn og flott samspil.

Á 42. mínútu dró aftur til tíðinda þegar Svíarnir urðu tveimur leikmönnum færri.  Joakim Olausson var vísað af leikvelli fyrir að toga í hár leikmanns íslenska liðsins.  Eins og gefur að skilja hafði íslenska liðið öll völd á vellinum og skoraði fyrirliðinn Oliver Sigurjónsson annað mark Íslands á 42. mínútu, glæsilegt skot beint úr aukaspyrnu rétt utan vítateigs.

Seinni hálfleikur var hrein einstefna að sænska markinu, en þrátt fyrir marga góða spretti og nokkur fín marktækifæri tókst leikmönnum Íslands ekki að bæta við mörkum og lokatölur urðu því 2-0.  Þetta var annar sigur Íslands á Svíþjóð í þessari tveggja vináttuleikja syrpu, því liðin mættust í Kórnum í Kópavogi á þriðjudag og þá vann Ísland 3-0.

Frammistaða íslenska liðsins í þessum tveimur leikjum var með miklum ágætum og greinilegt að þarna eru á ferðinni margir afar efnilegir leikmenn sem vert er að fylgjast vel með á næstu árum.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög