Landslið

A kvenna - Kínverjar lagðir á Algarve

Leikið gegn Svíum um þriðja sætið á mótinu á miðvikudaginn

10.3.2014

Ísland vann sætan sigur á Kínverjum í lokaleik liðsins í riðlakeppninni á Algarve mótinu í Portúgal.  Íslenska liðið vann með einu marki gegn engu og kom markið í uppbótartíma þegar Fanndís Friðriksdóttir skoraði beint úr hornspyrnu.

Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu og litu engin marktækifæri dagsins ljós í fyrri hálfleiknum og staðan því markalaus í leikhléi.  Sama var upp á teningnum langt fram eftir síðari hálfleiknum en íslenska liðið var þó heldur sterkara án þess að skapa sér marktækifæri.  Siðust mínútur leiksins reyndust svo mjög fjörugar.  Rakel Hönnudóttir átti skot í stöng á 85. mínútu og eftir darraðadans í teignum björguðu þær kínversku á marklínu.  Það var svo í uppbótartíma að Fanndís Friðriksdóttir tók hornspyrnu og sigldi boltinn framhjá öllum og endaði í netinu við mikil fagnaðarlæti íslenska liðsins.

Þessi sigur þýðir að íslenska liðið mætir því sænska í leik um þriðja sætið á miðvikudaginn en Þjóðverjar og Japanir leika til úrslita á mótinu.Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög