Landslið
UEFA EM U19 kvenna

1-1 jafntefli við Króatíu í síðasta leik í milliriðli

Skotar með fullt hús stiga og eru komnir í úrslitakeppnina

10.4.2014

U19 landslið kvenna gerði 1-1 jafntefli við Króata í lokaleik sínum í milliriðli fyrir EM, en leikið var í Króatíu í dag, fimmtudag.  Íslenska liðið var sterkari aðilinn í leiknum og með smá heppni hefði sigurinn getað lent okkar megin.  Svo fór þó ekki og hafnaði Ísland því í fjórða og neðsta sæti riðilsins.  Skotland vann góðan 2-0 sigur á Rússlandi á sama tíma.  Taka Skotar því efsta sætið með fullt hús stiga og fara í úrslitakeppnina, sem fram fer í Noregi í júlí.

Króatar leiddu í hálfleik gegn Íslandi með marki á 34. mínútu, en íslenska liðið jafnaði metin á 71. mínútu og var Telma Þrastardóttir þar að verki.
 

Umfjöllun um leikinn frá Tómasi Þóroddssyni, fararstjóra

Íslendingar léku síðasta leik sinn í milli riðli Evrópumótsins gegn heimastúlkum frá Króatíu. Íslendingar léku fínan fótbolta á köflum og eftir að hafa lent undir í leiknum, jöfnuðu þær með þrautseigju og voru ekki langt frá því að taka öll stigin í lokinn.

Byrjunarliðið var skipað eftirtöldum leikmönnum: Berglind, Eyrún, Ingunn, Guðrún, María, Karítas, Hildur, Andrea, Svava, Telma og Sigga Mæja

Íslendingar byrjuðu að krafti og strax á 4. min prjónaði Telma sig í gegn og var óheppin að skora ekki. Fimm mínútum seinna skutu Króatar rétt yfir. Á 11. min átti Svava frábæran sprett upp kantinn, sending fyrir, þar var Sigga Maja mætt og gott skot hennar var bjargað af varnarmanni. Telma náði boltanum, tók eina á, en markmaður Króata varði gott skot í horn. Úr horninu skallaði Hildur rétt yfir.

Á 14. min átti Telma mjög góða sendingu inn á Siggu Mæju sem tímasetti hlaupið mjög vel, en skot hennar fór rétt framhjá. Tveimur mínútum seinna voru Króatar aðgangsharðir og Berglind varði skall mjög vel. Á 25. min bjargaði Ingunn á síðustu stundu er ein Króatísk slapp í gegn.

Á 28. min átti Hildur snyrtilega sendingu inn á Svövu, hún komst ein í gegn, en skot hennar var varið. Á 34. min komust Króatar yfir eftir fallegt spil í gegnum vörn Íslendinga og hnitmiðuðu skoti.

Á 40. min átti Telma skot inn í teig sem var vel varið. Á 41. min átti Telma skot fyrir utan teig sem var vel varið. Ekkert markvert gerðist síðan fram að hálfleik og Króatar því yfir 1-0 í leikhléinu.

Strax í upphafi seinni hálfleiks spiluðu Sigga Mæja og Telma sig í gegnum Króatísku vörnina, en markmaður kom enn einu sinn í veg fyrir mark er hún las leikinn vel og greip inn í. Á 60. min kom Hrafnhildur inn fyrir Siggu Mæju. Sókn Íslenska liðsins þyngdist jafnt og þétt allan hálfleikinn án þess þó að vörn Króata hafi opnað sig.

Á 70. min átti Karítas svo þéttingsfast góða sendingu inn á Telmu, hún sneri á varnarmann og skaut frábæru skoti yfir markrmann Króata og í netið. Íslendingar loksins búnar að jafna leikinn.

Þegar um korter var eftir af leiknum kom Hulda inn fyrir Maríu og Hrafnhildur fór í bakvörðinn. Tíu mínútum seinna kom Hanna inn fyrir Karítas. Íslendingar áttu svo frábært færi undir lokinn. Hrafnhildur átti þá frábæra sendingu fyrir, en Svava var óheppin með skot sitt af markteig sem fór í hliðarnetið.

Niðurstaðan því jafntefli og Íslendingar með 1 stig í riðlinum.

Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög