Landslið

A kvenna - Stórsigur á Möltu

Harpa Þorsteinsdóttir með þrennu í átta marka sigri

10.4.2014

Ísland vann í dag stórsigur á Möltu í undankeppni HM en leikið var ytra.  Lokatölur urðu 0 – 8 fyrir Ísland sem leiddi með fjórum mörkum í leikhléi.  Yfirburðir íslenska liðsins voru algerir frá upphafi og einungis spurningin um hversu stór sigurinn yrði. 

Fyrsta markið kom strax á 2. mínútu þegar Harpa Þorsteinsdóttir setti boltann í netið.  Hún átti eftir að bæta við tveimur til viðbótar.  Dóra María Lárusdóttir skoraði beint úr aukaspyrnu á 15. mínútu og Harpa sett sitt annað mark á 23. mínútu.  Dagný Brynjarsdóttir skoraði svo fjórða markið á 33. mínútu.

Harpa átti fyrsta mark seinni hálfleiks einnig þegar hún skoraði á 60. mínútu og hún lagði upp mark fyrir Fanndísi, fjórum mínútum síðar.  Frábær samvinna hjá þeim tveimur í því marki.  Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði sjöunda markið á 87. mínútu eftir mikla þvögu og lokamarkið átti Dagný Brynjarsdóttir með skalla eftir hornspyrnu á fimmtu mínútu uppbótartíma.  Uppbótartíminn var reyndar um 12 mínútur í leiknum vegna  meiðsla leikmanna Möltu.

Eins og áður sagði voru yfirburðirnir miklir en samt sem áður þá hélt íslenska liðið sínu leikskipulagi og fyrirætlunum.  Stígandinn í leik liðsins hefur verið mikill síðustu mánuði og allir leikmenn hópsins leggja sitt af mörkum.  Sérstaklega er gaman að sjá hversu liðið ógnar mikið í föstum leikatriðum og fengum við mörk í dag eftir horn, aukaspyrnu og innkast.  Þá voru mörg markanna mjög glæsileg, bæði eftir einstaklingsframtak og vel útfærðar sóknir.

Góð sex stig sótt í þessari ferð sem nú er að renna sitt skeið á enda en næsta verkefni verður svo sannarlega krefjandi.  Þá verður haldið til Sviss og leikið við heimastúlkur 8. maí næstkomandi.  Þegar þetta er skrifað hafa þær fullt hús stiga og hafa enn ekki fengið mark á sig en eiga að leika við Dani á heimavelli síðar í dag.  Íslenska liðið tapaði gegn Sviss í fyrsta leiknum í þessari undankeppni í september á síðasta ári.  Það hefur mikið gerst í millitíðinni og öruggt að leikmenn og þjálfarar geta ekki beðið eftir að mæta þeim að nýju.

Staðan í riðlinumMót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög