Landslið

Frá blaðamannafundi í Austurríki

Lars og Aron Einar sátu fyrir svörum

28.5.2014

Annar af þjálfurum A landsliðs karla, Lars Lagerbäck, og fyrirliði liðsins, Aron Einar Gunnarsson, sátu fyrir svörum á blaðamannafundi sem haldinn var á Tivoli Stadion í Innsbrück í dag, miðvikudag.  Austurríki og Ísland mætast þar í vináttulandsleik á föstudag.  Leikurinn hefst kl. 18:30 að íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 sport.

Ég býst við góðum leik og jöfnum, þó einhverjir telji líklega Austurríkismennina sigurstranglegri“ sagði Lars í upphafi fundarins. „Þessi leikur er mjög mikilvægur í undirbúningi okkar fyrir undankeppni EM sem hefst í haust, því það verður mun erfiðara að leika vináttulandsleiki í þessu nýja kerfi landsleikja, þar sem leikjadagskráin er mjög þétt og jafnvel tveir dagar á milli leikja.  Okkur hefur gengið vel á fá vináttuleiki við sterka mótherja, sennilega vegna þess að okkur gekk vel í síðustu undankeppni.“

Hvað veit Lars um austurríska liðið? Austurríki er með gott lið, góða blöndu reynslumikilla og efnilegra leikmanna.  Þetta verður líklega aðeins auðveldara fyrir okkur þar sem ykkar besti maður, Alaba er ekki með“ sagði Svíinn geðþekki í gríni og austurrískir fréttamenn höfðu gaman af. Við höfum þó kynnt okkur austurríska liðið vel og munum fara vel yfir það með leikmönnum í kvöld og á morgun.  Við erum fyrst og fremst að undirbúa okkur fyrir haustið, en við munum engu að síður reyna að vinna leikinn, því það er mikilvægt að byggja upp og viðhalda hugarfari sigurvegara.“

Aðspurður hvort það væri svipað að vinna með sænska og íslenska landsliðið sagði Lars það að vissu leyti svipað. Viðhorf og fagmennska íslenskra leikmanna er í hæsta gæðaflokki.  Hugsanlega kom árangur okkar í undankeppni HM mörgum á óvart, en þessir leikmenn hafa einstakan karakter og þegar á leið keppnina kom þetta mér ekki á óvart.“

Af hverju hefur Ísland náð þessum árangri? Það er margt sem spilar inn í.  Megin ástæðan er að við erum með stóran hóp leikmanna sem eru atvinnumenn í efstu deildum í Evrópu.  Kjarninn í liðinu okkar í dag lék með U21 landsliðinu í úrslitakeppni EM í Danmörku 2011, mjög sterkur hópur sem hefur tekið stór skref fram á við.  Þessi árangur kemur þó ekki af sjálfu sér.  KSÍ og félögin á Íslandi hafa unnið mjög vel í sínu uppeldisstarfi og sveitarfélögin sem hafa kostað uppbyggingu knattspyrnumannvirkja eiga líka stóran þátt í þessu.“

Lars sagði að hann og Heimir væru ekki búnir að ákveða byrjunarliðið á föstudaginn, en að þeir myndu stilla upp sterku liði og reyna að vinna. Við erum með sterkan hóp og nokkra nýliða sem við fáum vonandi tækifæri til að skoða.  Þessir yngri geta kannski lært eitthvað af eldri og reyndari leikmönnum eins og Aroni Einari hér“ sagði Lars. Eldri leikmenn, ertu nokkuð að tala um mig?“ sagði Aron þá og menn höfðu gaman af.

Hverju býst Aron við og hvað veit hann um austurríska knattspyrnu? Ég hlakka til leiksins.  Þetta verður gott tækifæri fyrir okkur til að rétta okkur við eftir tapið í Wales.  Ég hef spilað á móti nokkrum í austurríska hópnum, t.d. Marc Arnautovic hjá Stoke, sem er sterkur leikmaður með góða tækni og hættuleg skot.  Við viljum einmitt mæta sterkum liðum og góðum leikmönnum, það er besti undirbúningurinn.“

Hvað með undankeppni EM 2016 og möguleikana þar? Þetta verður erfiður riðill og margt sem verður að ganga upp hjá okkur, en ef við stöndum saman sem lið og sýnum okkar besta í hverjum leik, þá mun okkur ganga vel.  Þessi hópur hefur spilað lengi saman og við höfum öðlast mikla reynslu á síðustu árum, ekki síst í undankeppni HM 2014.  Við munum gera okkar besta, og við munum berjast fyrir land okkar og þjóð í hverjum einasta leik, eins og alltaf.“


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög