Landslið

Frábær byrjun - Þriggja marka sigur á Tyrkjum

Mögnuð frammistaða íslenska landsliðsins í kvöld

9.9.2014

Þeir sem höfðu vonast eftir góðri byrjun íslenska landsliðsins í undankeppni EM fengu svo sannarlega mikið fyrir sinn snúð á Laugardalsvelli í kvöld.  Tyrkir voru lagðir að velli, 3 - 0, í frábærum leik þar sem íslensku strákarnir voru betri aðilinn allan leikinn.

Það var svo sannarlega ákveðið íslenskt lið sem mætti til leiks og tók yfirhöndina í leiknum strax í upphafi.  Færin voru mörg og t.a.m. átti Jón Daði Böðvarsson skalla í þverslána eftir frábæra fyrirgjöf frá Ara Frey Skúlasyni.  Jón Daði gerði enn betur stuttu síðar þegar hann skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar.  Mörkin urðu ekki fleiri fyrri hálfleiknum en frammistaðan frábær.

Síðari hálfleikurinn var einnig íslensk eign en það dró til tíðinda á 59. mínútu þegar einn leikmaður Tyrkja fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt.  Annað markið kom svo á 76. mínútu þegar Gylfi átti gott skot að marki sem tyrkneski markvörðurinn réði ekki við.  Áhorfendur voru ekki sestir þegar Kolbeinn Sigþórsson var svo búinn að bæta við þriðja markinu eftir sendingu frá Ara, 3 - 0 sem var fyllilega verðskulduð staða.  Mörkin urðu ekki fleiri en frammistaða íslenska liðsins var mögnuð í þessum leik, frá fremstu mönnum til Hannesar í markinu.  Einfaldlega frábær byrjun á þessari undankeppni.

Tveir aðrir leikir fóru fram í kvöld í riðlinum en Tékkar lögðu Hollendinga 2 - 1 og Kasakstan og Lettland gerðu markalaust jafntefli.

Frábær dagur fyrir íslenska knattspyrnu því í kvöld varð það einnig ljóst að U21 liðið hafði tryggt sér sæti í umspili fyrir úrslitakeppni EM 2015.
Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög