Landslið

Stórsigur á Serbum í síðasta landsleik Þóru

Þóra Helgadóttir skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í sínum síðasta landsleik

17.9.2014

Íslendingar lögðu Serba örugglega að velli í kvöld á Laugardalsvelli en þetta var lokaleikur Íslands í undankeppni HM.  Lokatölur urðu  eftir að staðan hafði verið 3 – 0 í leikhléi.  Íslenska liðið endaði í öðru sæti í riðlinum en komust þó ekki í umspil fyrir úrslitakeppni HM sem fram fer í Kanada 2015.

Það var Harpa Þorsteinsdóttir sem opnaði markareikninginn á 7. mínútu og Glódís Perla Viggósdóttir bætti við marki þremur mínútum síðar, hennar fyrsta landsliðsmark í 25. landsleiknum.  Fleiri leikmenn áttu eftir að opna sinn landsliðsmarkareikning í þessum leik.  Rakel Hönnudóttir gerði svo þriðja mark liðsins á 27. mínútu en mörkin voru ekki fleiri þegar gríski dómarinn flautaði til leikhlés.

Arna Sif Ásgrímsdóttir skoraði sitt fyrsta landsliðsmark, og fjórða mark Íslendinga á 58. mínútu en Serbar komust á blað tveimur mínútum síðar.  Nú gerðust hlutirnir hratt því Dagný Brynjarsdóttir skoraði á 63. mínútu.  Það var svo á 67. mínútu sem brotið var á Rakel Hönnudóttur innan vítateigs og dæmd vítaspyrna.  Yfir völlinn skokkaði þá Þóra Helgadóttir og, í sínum 108. og síðasta landsleik, skoraði sitt fyrsta landsliðsmark með þrumuskoti.  Harpa Þorsteinsdóttir skoraði svo sjöunda mark Íslands á 71 mínútu og nokkrum andartökum síðar hafði Rakel Hönnudóttir gert áttunda markið.  Það var svo Dagný Brynjarsdóttir sem gerði níunda og síðasta mark leiksins á 84. mínútu.

Góður leikur hjá íslenska liðinu þar sem vilji og einbeiting skinu af leikmönnum.  Með þessum úrslitum tryggði Ísland sér annað sætið í riðlinum en Danir töpuðu óvænt gegn Ísrael á heimavelli í kvöld, 0 – 1.  Það dugir hinsvegar ekki íslenska liðinu til að komast í umspil fyrir úrslitakeppnina því aðeins fjórar þjóðir, með bestan árangur í öðru sæti úr riðlunum tíu, komast í umspilið.  Engu að síður frábær endir á góðri undankeppni og ekki síst ánægjulegt að kveðja Þóru Helgadóttur með slíkum leik og úrslitum.  Þóra lék í kvöld sinn 108. landsleik en A - landsliðsferill hennar hófst árið 1998 og spannar því góð 16 ár.  Frábær leikmaður sem hefur verið einn besti markvörður heims um árabil. 

Myndasíða KSÍMót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög