Landslið
Frá æfingu U21 karla í Álaborg

U21 karla - Leikið gegn Dönum í dag

Leikurinn verður í beinni útsendingu hjá RÚV

10.10.2014

Strákarnir í U21 leika í dag fyrri leik sinn í umspili um sæti í úrslitakeppni EM 2015 þegar þeir mæta Dönum.  Leikið verður á Aalborg stadion og hefst leikurinn kl. 18:00 að staðartíma eða kl. 16:00 að íslenskum tíma.  Seinni leikurinn fer fram á Laugardalsvelli, þriðjudaginn 14. október kl. 16:15.

Liðið æfði á hinum prýðilega keppnisvelli í gær undir flóðljósum en völlurinn tekur um 10.500 manns í sæti.  Það er mikil tilhlökkun innan hópsins við að takast á við þetta spennandi verkefni en ljóst er að danska liðið er virkilega sterkt, vann sinn riðil örugglega í undankeppninni.

Samanlagður árangur úr leikjunum tveimur sker úr um það hvor þjóðin kemst í úrslitakeppnin í Tékklandi á næsta ári.  Sex aðrir leikir fara fram í umspilinu í dag en einum leik er lokið, Portúgal lagði Holland á útivelli, 2 - 0.

Íslendingar í Álaborg og víðar ætla ekki að láta sitt eftir liggja og ætla að styðja okkar stráka.  Þeir ætla að koma saman á John Bull Pub við Nytorv um 14:30 á leikdag og leggja svo á stað á völlinn á milli 16:30 og 17:00.  Þar ætla þeir að koma sér fyrir í stúku sem ætluð er aðkomuliðum, við inngang 7 og 8.  Frítt er inn á völlinn í Álaborg og eru Íslendingar á svæðinu hvattir til þess að fjölmenna á völlinn. 


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög