Landslið

A karla - Ísland með fullt hús stiga eftir öruggan sigur í Lettlandi

Ísland er í góðri stöðu eftir góðan 3-0 sigur í kvöld á erfiðum útivelli.

10.10.2014

Ísland vann frábæran 3-0 sigur í Lettlandi í kvöld og er með fullt hús stiga í A-riðli í undankeppni EM. Íslenska liðið var mun sterkara en það lettneska en það tók dágóðan tíma að brjóta niður varnarmúr heimamanna. 

Fyrri hálfleikur var ekki mikið fyrir augað þar sem heimamenn í Lettlandi ákváðu að pakka í vörn og vera ekkert mikið að athafna sig út á vellinum. Íslenska liðið náði ekki komast í gegnum varnarmúr lettneska liðsins og þrátt fyrir ágætis tilraunir þá var staðan 0-0 í hálfleik. 

Lettar léku sama leik í seinni hálfleik þar sem þeir pökkuðu tilbaka og hugsuðu lítið um að koma sér í sóknina. Lettar misstu mann af velli á 55.mínútu þegar sóknarmaðurinn Artjoms Rudnevs fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir að slá Aron Einar með olnboganum. Við þetta duttu Lettar enn aftar á völlinn, ef það var þá almennt hægt, og reyndu hvað þeir gátu að stöðva íslensku sóknirnar. 

Það gekk brösuglega að byggja upp sóknir með alla leikmenn lettneska liðsins í eigin vítateig enda ekki margar glufur að finna á varnarveggnum. En erfiðið uppskar árangur á 67.mínútu þegar Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sannkallað draumamark. Gylfi fékk boltann í vítateig Letta þar sem hann snéri á varnarmenn áður en hann hamraði boltanum í netið. Glæsilegt! 

Dómari leiksins meiddist á 70. mínútu og reyndi Friðrik sjúkraþjálfari að tjasla honum saman. Það gekk ekki sem skyldi og tók nokkrar mínútur að ákveða hvaða dómari myndi dæma leikinn eftir það. Það gekk þó að lokum að finna rétta dómarann, enda eru 6 dómarar á vellinum, og leikur hélt áfram. Ísland hélt áfram að sækja og það skilaði marki á 77. mínútu þegar Aron Einar Gunnarsson skallaði knöttinn í markið eftir að Emil Hallfreðsson sendi frábæra sendingu fyrir markið. 2-0! 

Lars og Heimir gátu hvílt leikmenn eftir þetta enda næsti leikur við Hollendinga á mánudagskvöld. En markaskorun var ekki lokið en það var Rúrik Gíslason sem með harðfylgi skoraði seinasta mark leiksins en markið kom undir lok leiksins. Eftir 8 mínútur í uppbótartíma varð niðurstaðan var 3-0 sigur gegn varnarliði Letta. 

Ísland er með fullt hús stiga eftir sigra á Tyrkjum og Lettum og næst eru það Hollendingar á heimavelli.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög