Landslið
UEFA EM U17 karla

Tvö mörk í fyrri hálfleik kláruðu Armena

Ísland með 4 stig eftir tvo leiki – Stig gegn Ítalíu tryggir sæti í milliriðlum

17.10.2014

U17 landslið karla vann í dag góðan tveggja marka sigur á Armenum í undankeppni EM, en riðillinn er leikinn í Moldavíu.  Bæði mörk Íslands komu í fyrri hálfleik.  Íslenska liðið er nú með fjögur stig eftir tvo leiki og mætir Ítalíu í síðustu umferð, sem fram fer á mánudag, en Ítalir hafa unnið báða leiki sína með sömu markatölunni, 3-0, og eru þegar komnir áfram.  Jafntefli gegn Ítalíu tryggir íslenska liðinu sæti í milliriðlum.  Tapi íslenska liðið og Moldóvar vinna Armena kemur til útreikninga vegna innbyrðis viðureigna og/eða markatölu.  Takist hins vegar Moldóvum ekki að vinna Armena er íslenska liðið komið áfram, burtséð frá úrslitum í leik Íslands og Ítalíu.

Okkar drengir voru sterkari aðilinn heilt yfir gegn Armenum og voru því vel að sigrinum komnir.  Máni Austmann Hilmarsson skoraði fyrra markið á 13. mínútu og Erlingur Agnarsson bætti öðru marki við eftir 36. mínútna leik.  Armernar gerðu tvær breytingar í hálfleik og freistuðu þess að snúa leiknum sér í hag.  Það tókst þó ekki og Íslendingar höfðu áfram undirtökin í leiknum.  Jón Dagur Þorsteinsson var nærri því að bæta við þriðja marki Íslands á 75. mínútu og Erlingur Agnarsson á lokamínútunni, en mörkin urðu ekki fleiri.

Sem fyrr segir fer leikur Íslands og Ítalíu fram á mánudag og hefst hann kl. 12:00 að íslenskum tíma.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög