Landslið
Coca-Cola styrkleikalisti FIFA fyrir karlalandslið

Styrkleikalisti FIFA - Ísland í 28. sæti

Karlalandsliðið aldrei verið ofar á þessum lista

23.10.2014

Á nýjum styrkleikalista FIFA karla, sem gefinn var út í morgun, fer Ísland upp um sex sæti og situr nú í 28. sæti listans.  Íslenska karlalandsliðið hefur aldrei verið ofar á þessum lista en það eru heimsmeistarar Þjóðverja sem eru í efsta sætinu sem fyrr og Argentínumenn koma þar næstir.

Ísland er í 17. sæti af aðildarlöndum UEFA, sem eru 54 talsins.  Ef skoðuð er staða andstæðinga Íslands í undankeppni EM 2016, þá eru Hollendingar í 5. sæti og næstu andstæðingar Íslands, Tékkland, eru í 22. sæti.  Tyrkir eru í 46. sæti, Lettar í 99. sæti og Kasakstan er í 132. sæti á styrkleikalista FIFA.

Ísland er efst Norðurlandaþjóða að þessu sinni en Danir eru í 32. sæti og Svíar í 39. sæti.  Finnar koma svo í 63. sæti, Norðmenn eru í 68. sæti og Færeyingar eru í 187. sæti. 

Ísland leikur gegn Tékkum þann 16. nóvember næstkomandi í undankeppni EM en þann 12. nóvember verður leikinn vináttulandsleikur gegn Belgum ytra.  Belgar hafa einmitt aldrei verið ofar á styrkleikalistanum heldur en einmitt nú en þeir skutust upp fyrir nágranna sína í Hollandi og sitja í 4. sæti.

Styrkleikalisti FIFA


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög