Landslið

Góður sigur á Hollandi í Kórnum

Frábær síðari hálfleikur skóp góðan sigur

4.4.2015

Íslenska kvennalandsliðið mætti því hollenska í vináttulandsleik í dag en leikið var í Kórnum.  Lokatölur urðu 2 – 1 fyrir Ísland  eftir að hollenska liðið hafði leitt í leikhléi, 0 – 1.

Það var íslenska liðið sem fékk fyrsta færi leiksins strax á 4. mínútu þegar Harpa Þorsteinsdóttir, í sínum 50. landsleik, vann boltann af varnarmönnum og lék inn í teig en hollenski markvörðurinn varði ágætt skot hennar.  Gestirnir komst  svo yfir á 17. mínútu leiksins með góðu skoti rétt utan vítateigs en jafnræði hafði verið með liðunum fram að því.  Hollenska liðið réð svo ferðinni næstu mínútur en íslenska liðið sótti svo í sig veðrið þegar leið á hálfleikinn.  Sara Björk Gunnarsdóttir komst í gott færi á 30. mínútu eftir góða hápressu frá íslenska liðinu en markvörður gestanna varði með góðu úthlaupi.

Íslenska liðið var svo heldur sterkari aðilinn til að byrja með í síðari hálfleik en þegar leið á hálfleikinn tóku okkar stelpur öll völd og stjórnuðu leiknum algjörlega.  Liðið skapaði sér fjölda færa og á 71. mínútu skoraði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir með skoti úr teignum eftir að Sara Björk Gunnarsdóttir hafði skallað hornspyrnu Fanndísar Friðriksdóttur í stöngina.  Íslensku stelpurnar fengu fjölda færa til að bæta við og á 80. mínútu var dæmd vítaspyrna á Holland.  Dagný Brynjarsdóttir skallaði boltann inn fyrir vörnina þar sem Guðmunda Brynja Óladóttir sýndi mikið harðfylgi og stakk sér fram fyrir varnarmann Hollands sem dró hana niður innan vítateigs.  Fyrirliðinn Sara Björk tók spyrnuna og skoraði framhjá góðum markverði Hollands.  Lítið var um færi sem eftir lifði leiks og íslenska liðið fagnaði góðum sigri í leikslok.

Fyrri hálfleikurinn var köflóttur hjá íslenska liðinu en síðari hálfleikurinn var virkilega vel leikinn.  Átti það ekki síst við um sóknarleikinn því stelpurnar sköpuðu sér mörg góð færi og áttu margar góðar sóknarlotur.

Hollenska liðið, sem er í 11. sæti á styrkleikalista FIFA, heldur héðan til Noregs þar sem þær leika vináttulandsleik gegn heimastúlkum. 

Myndir úr leiknum.Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög