Landslið
UEFA EM U17 kvenna

Dregið í riðla í ráðhúsi Reykjavíkur 29. apríl

Úrslitakeppni EM U17 kvenna fer fram á Íslandi dagana 22. júní til 4. júlí

24.4.2015

Úrslitakeppni EM U17 landsliða kvenna fer fram hér á landi í sumar, nánar tiltekið dagana 22. júní til 4. júlí.  Um er að ræða gríðarlega umfangsmikið verkefni og er fyrsti stóri viðburðurinn vegna þessa móts á dagskrá miðvikudaginn 29. apríl, en þá verður dregið í riðla.  Drátturinn fer fram í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem viðstaddir verða fjölmargir fulltrúar allra liðanna sem leika í úrslitakeppninni, auk fulltrúa KSÍ, UEFA, fjölmiðla og annarra aðila sem tengjast mótinu með einum eða öðrum hætti.

Að drættinum loknum halda síðan fulltrúar liðanna hver í sína áttina til að skoða þá æfingavelli sem koma til greina, auk þess að skoða keppnisvellina og aðra aðstöðu.  Að skoðun lokinni fer fram vinnustofa í höfuðstöðvum KSÍ þar sem farið verður mjög ítarlega yfir alla skipulagsþætti, og er þeirri vinnustofu stýrt af fulltrúum UEFA.

Í úrslitakeppninni leika 8 lið í tveimur fjögurra liða riðlum.  Að lokinni riðlakeppni er leikið í kross í undanúrslitum og sigurliðin þar mætast í úrslitaleik 4. júlí.

Ísland tekur þátt í mótinu sem gestgjafi.  Hin liðin sjö eru Sviss, England, Írland, Þýskaland, Spánn, Noregur og Frakkland.

Leikir mótsins fara fram á sex völlum, sem eru eftirtaldir:  Kópavogsvöllur, Grindavíkurvöllur, Akranesvöllur, Víkingsvöllur, Fylkisvöllur og Valsvöllur.  Tveir leikir fara fram á Kópavogsvelli og á Valsvellinum fara fram báðir undanúrslitaleikirnir og sjálfur úrslitaleikurinn.

Opnað hefur verið fyrir hlekk á sérstaka vefsíðu mótsins sem er á slóðinni wu17.ksi.is, en þar er nú talið niður þar til bein vefútsending frá drættinum í næstu viku hefst.  Auk þess má skoða ýmsar upplýsingar um mótið á vef UEFAMót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög