Landslið

Soubeyrand: "Komum hingað til að vinna mótið"

Frakkar ætla sér stóra hluti á EM U17 kvenna á Íslandi

29.4.2015

Sandrine Soubeyrand er þjálfari U17 kvennalandsliðs Frakklands, sem er á meðal keppnisliða í úrslitakeppni EM hér á landi í sumar.  Soubeyrand, sem á að baki heila 198 A-landsleiki fyrir þjóð sína, þar á meðal nokkra gegn Íslandi, var viðstödd dráttinn í riðla fyrir keppnina, sem fram fór í ráðhúsi Reykjavíkur í dag, miðvikudag.  Vefsíða KSÍ tók Soubeyrand tali eftir dráttinn.

Hverjar eru væntingar hennar til mótsins?

„Ég hlakka til mótsins.  B-riðillinn, sem við lentum í, er ekki jafn erfiður á pappírnum og A-riðillinn, en samt verða allir leikir erfiðir, enda þegar komið er í úrslitakeppni eru bara sterk lið eftir.  Okkar markmið á Íslandi í sumar er að komast sem allra lengst.“

Eins og segir hér að ofan hefur Soubeyrand leikið 198 A-landsleiki og lengst af var hún fyrirliði landsliðsins, enda mikill leiðtogi innan sem utan vallar.  Er næsti framtíðar leiðtogi franska landsliðsins í leikmannahópi Frakka í sumar, næsta Sandrine Soubeyrand?

„Vonandi,“ sagði hún og hló, „en það er kannski of snemmt að segja til um það.  Við erum með marga góða leikmenn í þessum aldurshópi.  þær leikmenn eru að byrja mun fyrr í landsliðsverkefnum en ég gerði, en vonandi skila einhverjar þeirra sér upp í A-liðið þegar fram líða stundir.  Reynslan af svona móti er mikilvæg fyrir unga leikmenn og framþróun þeirra.  Vonandi get ég miðlað af reynslu minni til leikmanna í dag, sem þær geta nýtt sér til að verða betri leikmenn í framtíðinni.“

Frakkland hefur þrisvar sinnum leikið til úrslita í EM U17 kvenna, en hefur enn ekki náð að vinna titilinn.  Hvert er markmiðið á mótinu í sumar?

„Við komum hingað til að vinna mótið“, sagði Soubeyrand ákveðin, og ljóst að franska liðið ætlar sér stóra hluti.

Mynd:  Þjálfarar liðanna í B-riðli eftir að dregið var í riðla.

Frá vinstri:  David Connell (Írland), Sandrine Soubeyrand (Frakkland), Monica Di Fonzo (Sviss) og Lena Tiryberget (Noregur).

Dregið í EM U17 kvenna 2015

 

 


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög