Landslið

Íslensk knattspyrna 2015 komin út

Þetta er 35. árið í röð sem bókin kemur út

10.12.2015

Bókaútgáfan Tindur hefur gefið út bókina Íslensk knattspyrna 2015 eftir Víði Sigurðsson en þetta er 35. árið í röð sem árbók knattspyrnunnar á Íslandi kemur út.   

Bókin er stærri en nokkru sinni fyrr en hún var stækkuð um sextán síður með sérstökum viðauka um karlalandsliðið og þann árangur þess að tryggja sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins 2016. Bókin er nú 272 blaðsíður, öll litprentuð eins og undanfarin ár, og myndirnar eru líka fleiri en nokkru sinni fyrr, eða rúmlega 380 talsins. Þar eru m.a. liðsmyndir af sigurvegurum í öllum deildum og flokkum, öllum liðum sem fóru upp um deild í meistaraflokkum karla og kvenna, og svo af miklum fjölda leikmanna sem komu við sögu á árinu.  

Í bókinni eru viðtöl við Gylfa Þór Sigurðsson, Margréti Láru Viðarsdóttur, Geir Þorsteinsson, Fanndísi Friðriksdóttur og Emil Pálsson. Þar er einnig að finna frásagnir af öllum landsleikjum í öllum aldursflokkum, fjallað ítarlega um allar deildir Íslandsmótsins og gangur þess rakinn frá umferð til umferðar í efri deildunum, umfjöllun um alla Evrópuleiki íslensku liðanna, bikarkeppnina, deildabikarinn, nákvæmt yfirlit yfir atvinnumennina erlendis og hvað þeir gerðu á árinu, og margt fleira.   

Þá er í bókinni afar nákvæm tölfræði um alla leikmenn í efstu deildum karla og kvenna, leikmenn allra liða í öllum deildum meistaraflokks koma fram ásamt leikja- og markafjölda, öll úrslit og lokastöður í öllum yngri flokkum á Íslandsmótinu. Þar má finna hverjir hafa spilað mest og skorað mest í öllum deildum, hvaða íslensku knattspyrnumenn hafa spilað flesta leiki á ferlinum, hvaða Íslendingar hafa spilað í Meistaradeild Evrópu, og ótalmargt fleira. Í bókinni er m.a. opinberað hvaða leikmenn áttu flestar stoðsendingar í efstu deildum karla og kvenna á árinu en viðkomandi leikmenn eru verðlaunaðir af bókaútgáfunni Tindi við útkomu bókarinnar.


Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, fékk bókina afhenta frá Víði Sigurðssyni, höfundi Íslenskrar knattspyrnu 2015.Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög