Landslið

Umsóknarglugginn fyrir miða á EM 2016 opnar í dag, mánudag

Stuðningsmenn þátttökuþjóðanna geta sótt um miða frá og með kl. 11:00 að íslenskum tíma í gegnum miðasöluvef UEFA (www.euro2016.com)

14.12.2015

Umsóknarglugginn fyrir miða á úrslitakeppni EM karlalandsliða 2016 opnar mánudaginn 14. desember kl. 11:00 að íslenskum tíma. Eingöngu er hægt að sækja um miða í gegnum miðasöluvef UEFA (www.euro2016.com) og öll afgreiðsla eða þjónusta vegna umsókna fer fram í gegnum UEFA. 

Alls verða 800.000 miðar á leiki keppninnar í boði í þessum umsóknarglugga, sem er sérstaklega ætlaður stuðningsmönnum þátttökuþjóðanna 24.

Fyrsti umsóknarglugginn var opinn 10. júní til 10. júlí á þessu ári, en þá var 1 milljón almennra miða í boði og bárust umsóknir um alls 11.264.142 miða.  Þegar um er að ræða umframeftirspurn er dregið úr innsendum umsóknum og er það happdrætti framkvæmt af UEFA.  Sami háttur verður hafður á vegna umsókna um þá 800.000 miða sem verða í boði í næsta glugga.  Íslenskir ríkisborgarar (búsettir á Íslandi eða erlendis) og erlendir ríkisborgarar búsettir á Íslandi njóta þó forgangs þegar kemur að afgreiðslu umsókna um miða á leiki Íslands í keppninni.  Rétt er að taka fram að eingöngu einstaklingar geta sótt um þessa miða og getur hver og einn sótt um fjóra miða að hámarki á hvern leik.  Fyrirtæki eða einstaklingar sem hafa áhuga á að kaupa miða í sæti þar sem veitingar fylgja geta sótt um miða í gegnum þar til gert svæði á miðasöluvef UEFA (www.euro2016.com).

Hægt er að sækja um miða á stakan leik / staka leiki, eða svokallaða „Follow my team“ miða.  Þannig er t.d. hægt að sækja um miða á alla leiki Íslands, burtséð frá því hversu langt íslenska liðið kemst í keppninni.  Nánari upplýsingar um þetta fyrirkomulag og skilmála þess er að finna á miðasöluvef UEFA (www.uefa.com). Þá er einnig hægt að sækja sérstaklega um miða fyrir þá einstaklinga sem þurfa auðvelt aðgengi, t.d. stuðningsmenn sem hafa sérþarfir.

Umsóknarglugginn opnar sem fyrr segir mánudaginn 14. desember kl. 11:00 að íslenskum tíma.  Mikilvægt er að hafa í huga að ekki er um að ræða „fyrstir koma, fyrstir fá“ fyrirkomulag.  Glugginn er opinn til 18. janúar kl. 11:00 að íslenskum tíma og engu breytir hvenær innan gluggans umsókn um miða er skráð. Niðurstaða umsókna liggur fyrir í febrúar og munu umsækjendur fá tilkynningu frá UEFA.

Umsækjendur skrá notandaaðgang í gegnum miðasöluvef UEFA (www.euro2016.com) og fylgja innskráningarferli og viðeigandi leiðbeiningum. 
Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög