Landslið

Heimir:  „Mikilvægt að skoða sem flesta“

„Notum við þetta verkefni til að gefa mönnum tækifæri til vinna með okkur, kynnast landsliðsumgjörðinni, sýna sig og sanna“

25.1.2016

Leikmannahópur A landsliðs karla fyrir vináttuleikinn við Bandaríkin var birtur á vef KSÍ í dag, mánudag, en liðin mætast á StubHub Center leikvanginum í Carson, Los Angeles, þann 31. janúar.  Fimm nýliðar eru í hópnum og líkt og í fyrra janúarverkefni liðsins segir Heimir Hallgrímsson, annar þjálfara liðsins, að markmiðið sé að breikka hópinn og skoða fleiri leikmenn.

Eins og í verkefninu í Sameinuðu arabísku furstadæmunum þá notum við þetta verkefni til að gefa mönnum tækifæri til vinna með okkur, kynnast landsliðsumgjörðinni, sýna sig og sanna.  Þetta eru allt áhugaverðir leikmenn og eins og fyrir leikina í Abu Dhabi og Dubai, þá erum við auðvitað að undirbúa okkur fyrir EM í Frakklandi, en um leið að undirbúa komandi undankeppni fyrir HM 2018.  Sú undankeppni hefst strax í september og það er mikilvægt að vinna þann undirbúning jafnt og þétt allt árið, eins og við erum m.a. að gera með því að senda menn til að leikgreina liðin sem eru með okkur í HM-riðlinum þegar þau leika á EM í Frakklandi.“

Leikurinn við Bandaríkin er ekki á alþjóðlegum leikdegi og því er hópurinn að mestu skipaður leikmönnum sem eru á mála hjá félagsliðum á Norðurlöndunum.  En þó ekki alveg.

Við erum alltaf að leitast við að breikka hópinn og það er mikilvægt að skoða sem flesta.  Þarna erum við að velja marga spennandi leikmenn sem hafa staðið sig vel heima á Íslandi, t.d. Ævar Inga og Aron, báðir flottir og kraftmiklir leikmenn með hæfileika.  Þeir eru tveir nýliðar af fimm í hópnum.  Aron Elís hefur verið að standa sig vel með U21 liðinu og er spennandi kostur.  Hjörtur Hermannsson fékk leyfi frá PSV til að koma í þetta verkefni, okkur finnst hann virkilega spennandi leikmaður, eins og Diego Jóhannesson, sem er nú kominn með íslenskt vegabréf og er því gjaldgengur í landsliðið.  Diego er að standa sig vel með sínu félagsliði, sem er í toppbaráttu næst efstu deildarinnar á Spáni, og hefur sýnt því mikinn áhuga að leika með íslenska landsliðinu.  Við höfum fylgst með honum, tökum hann inn í hópinn núna og skoðum eins og aðra leikmenn.“

Reynslumiklir leikmenn í bland við nýliða

Í hópnum eru auðvitað ekki eingöngu nýliðar, því við erum með býsna reynslumikla leikmenn líka, til dæmis Eið Smára og bakverðina sem léku stórt hlutverk í undankeppni EM, þá Ara Frey og Birki Má.  Þarna eru líka fleiri reynsluboltar eins og Gunnleifur og Hallgrímur Jónasson, þannig að kjölfestan í hópnum er traust.  Jón Guðni, Gummi Tóta og Kiddi Steindórs hafa verið með okkur áður.  Rúnar Már, Garðar Gunnlaugs og Kjartan Henry voru með okkur í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.  Við erum með fína blöndu af nýliðum og svo reynslumeiri leikmönnum.  Það verður áhugavert að sjá alla þessa leikmenn.“

Öflugur mótherji

Flestir leikmennirnir í bandaríska landsliðinu leika í MLS-deildinni þar í landi og það lið sem við mætum verður eingöngu skipað leikmönnum þaðan.  Þetta er hörkudeild og bandaríska landsliðið er firnasterkt.  Verkefnið verður verðugt fyrir okkur og þetta verður mikil áskorun.  Við munum þó ekki breyta miklu í okkar umgjörð og okkar leikskipulagi, við einbeitum okkur að leik íslenska liðsins og uppbyggingu þess fyrir komandi verkefni.“


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög