Landslið

A kvenna - Sigur í fyrsta leik á Algarve-mótinu

Sigurmark Íslands kom í uppbótartíma

2.3.2016

 A-landslið kvenna vann 2-1 sigur á Belgíu í fyrsta leik liðsins á Algarve-mótinu i Portúgal. Sigurmarkið kom í uppbótartíma en það var Dagný Brynjarsdóttir sem tryggði Íslandi sigur í leiknum.

Leikurinn byrjaði vel fyrir Íslenska liðið sem hafði undirtökin lengst af en Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir kom Íslandi yfir á 5. mínútu leiksins með laglegu skallamarki. Það voru samt Belgar sem áttu seinasta orðið í fyrri hálfleik en liðið jafnaði metin á 43. mínútu leiksins. Staðan í hálfleik var því jöfn 1-1. 

Íslenska liðið pressaði stíft að mark Belgíu í seinni hálfleik og minnstu munaði að Margrét Lára Viðarsdóttir kæmi Íslandi yfir á 73. mínútu þegar skot hennar fór rétt framhjá markinu. Það stefndi allt í jafntefli þar til í uppbótartíma þegar Dagný Brynjarsdóttir skoraði og tryggði Íslandi sigur. Markið kom eftir sendingu frá Hallberu Guðnýju Gísladóttur fyrir markið þar sem Dagný náði skoti á markið og endaði boltinn í netinu.

Frábær sigur í fyrsta leik íslenska liðsins í Portúgal.

Næsti leikur Íslands er gegn Danmörku á föstudaginn og hefst leikurinn klukkan 15:00.

Viðtöl og helsti atvik leiksins má finna á vef Sporttv.is
Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög