Landslið

A kvenna – Íslenskur sigur á Danmörku

Ísland er með fullt hús stiga eftir tvo sigra á Algarve-mótinu

4.3.2016

Leikurinn byrjaði af miklum krafti hjá íslenska liðinu sem pressaði frá fyrstu mínútu og sá til þess að danska liðið kæmist varla yfir á okkar vallarhelming. Fyrsta mark leiksins kom á 10. mínútu en þá komst Elín Metta Jensen ein í gegn eftir mistök í dönsku vörninni og hún skoraði örugglega.

Það leið ekki á löngu þar til Ísland komst í 2-0 en Ísland fékk þá hornspyrnu og  varnarmaður danska liðsins skallaði boltann í eigið net. Markið kom á 12. mínútu og má segja að það hafi slegið danska liðinu algjörlega útaf laginu. Eftir mörkin hægðist á leiknum og Danir fóru smám saman að komast meira í takt við leikinn. Ekki voru fleiri mörk skoruð áður en blásið var til leikhlés og Ísland leiddi 2-0 í hálfleik.

Danir komust fljótlega á blað í seinni hálfleik en liðið minnkaði muninn í 2-1 á 51. mínútu leiksins. Íslenska liðið lét það ekki slá útaf laginu og Sandra María Jessen kom Íslandi í 3-1 á 59. mínútu með laglegu marki. Berglind Björg sendi boltann fyrir og Sandra skoraði með þrumuskoti. Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði svo seinasta mark leiksins í uppbótartíma og öruggur sigur í höfn.

Lokatölur urðu 4-1 sigur Íslands í leiknum en það skýrist í lokaleiknum um hvaða sæti Ísland leikur. Kanada vann á sama tíma 1-0 sigur á Belgíu og íslenska liðinu nægir því jafntefli gegn Kanada til að leika um gullið á mótinu. Ef Ísland tapar leiknum þá fer það eftir úrslitum úr leik Danmerkur og Belgíu um hvaða sæti Ísland leikur.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög