Landslið

A landslið karla mætir Noregi í dag

Ísland og Noregur hafa mæst 32 sinnum

31.5.2016

A-landslið karla leikur í dag vináttulandsleik við Noreg á Ullevål-vellinum í Osló. Leikurinn er hluti af lokaundirbúningi liðsins fyrir EM í Frakklandi en seinasti leikur Íslands verður gegn Liechtenstein þann 6. júní og stendur nú yfir miðasala á leikinn.

Ísland og Noregur hafa mæst 32 sinnum í A landsliðum karla og Noregur hefur unnið 18 af þessum leikjum. Ísland hefur fagnað sigri 8 sinnum en 6 sinnum hafa liðin sæst á jafnan hlut. Markatalan er því skiljanlega ekki Íslandi í hag en Ísland hefur skorað 31 mark í leikjunum gegn 58 mörkum norska liðsins.

Ísland var með Noregi í riðli í undankeppni EM 2012 og vann 2-0 á Laugardalsvelli. Íslenska liðið tryggði sér umspilssæti í undankeppni HM 2014 með 1-1 jafntefli seinast þegar liðin áttust við, sem var einmitt á Ullevål-vellinum í október 2013.

Noregur lék þann 29. maí vináttulandsleik gegn Portúgal og tapaði leiknum 3-0 en Ísland mætir einmitt Portúgal í fyrsta leik sínum á EM í Frakklandi. Seinasti vináttuleikur Íslands var gegn Grikkjum og vann Ísland 3-2 sigur í leiknum.

Leikurinn í dag er sýndur í beinni útsendingu á RÚV og hefst hann klukkan 17:45.Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög