Landslið

A kvenna - Dagný komin til Falkirk

Leikið gegn Skotum í undankeppni EM á föstudaginn

31.5.2016

Allur hópurinn er nú kominn saman í Falkirk en Dagný Brynjarsdóttir kom til móts við hópinn í dag.  Dagný var að leika með félagsliði sínu í Bandaríkjunum á sunnudagskvöld og ferðalag frá vesturströnd Bandaríkjanna tekur sinn tíma.  Tveir leikmenn úr skoska hópnum voru samferða henni en Dagný mætti þeim einmitt á sunnudagskvöldið þegar Portland Thorns og Seattle Reign gerðu markalaust jafntefli í NWSL deildinni.  Þetta eru miðvörðurinn Rachel Corsie og miðjumaðurinn Kim Little.  Dagný átti þó nokkuð í höggi við Rachel í leiknum en sú sunnlenska lék sem framherji í þessum leik.

Dagný náði þó ekki æfingu dagsins en verður klár í slaginn á morgun þegar æft verður tvisvar sinnum.  Aðstæður eru hinar ákjósanlegustu hér í Falkirk, veðrið leikur við heimamenn og gesti þeirra.  Sólin lætur mikið fyrir sér fara og hitinn er um 18 stig.  Allar æfingarnar fara fram á gervigrasi enda verður leikið á gervigraslögðum Falkirk velli á föstudaginn.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög