Landslið

Aron Einar: „Erum ekki komnir hingað í sumarfrí”

Ísland leikur við Portúgal á þriðjudaginn

11.6.2016

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, segir íslenska landsliðið ekki komið á EM í Frakklandi til að vera í sumarfríi þrátt fyrir að það sé gott veður. Liðið ætli sér stóra hluti á mótinu en spennan sé óneitanlega að aukast meðal leikmanna liðsins. 

„Staðan á leikmönnum er fín, andrúmsloftið er fínt og leikmenn eru afslappaðir en meðvitaðir um hvað er að fara að gerast. Ég held að þetta sé góð blanda af spenningi og afslöppun,” segir fyrirliðinn um stöðuna á leikmannahópnum. 

En finna leikmenn fyrir því að pressan sé að aukast þegar styttist í fyrsta leikinn? 

„Já auðvitað. Það er bara partur af þessu, menn taka vel á því á æfingum og hafa svo allan daginn í að koma sér í stand fyrir næstu æfingu og þannig verður þetta vonandi út næstu vikur hjá okkur. Svo er fyrsti leikurinn 14. júní og stutt í næsta leik þar á eftir og því þarf allt að ganga upp hjá okkur.”

Portúgal í fyrsta leik, hversu mikilvægt er að ná góðum úrslitum úr fyrsta leik?

„Það er auðvitað mikilvægt fyrir sjálfstraustið að byrja mótið vel. Við erum að mæta gríðarlega sterku liði og vitum að við erum ekkert að fara að vera með boltann mikið og þurfum því að verjast vel.„

Hvað með umræðuna að vera „litla liðið í þessari keppni. Hjálpar það okkur?

„Bæði og, við höfum gert vel þegar við höfum verið „underdogs” en við erum alls ekki „underdogs” í hausnum á okkur. Við mætum út og viljum vinna alla leiki, við erum ekkert komnir í frí þó það sé smá sól úti.”

Viðtalið í heild og fleiri viðtöl má sjá á YouTube-síðu KSÍ.Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög